Eigi síðar en 15. júní er stefnt að því að ferðamenn sem hingað koma geti í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví valið á milli þess að fara í skimun á Keflavíkurflugvelli eða framvísa vottorði sem metið er fullgilt af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Reynist sýni neikvætt þarf viðkomandi ekki að fara í tveggja vikna sóttkví. Fyrirhugað er að veirufræðideild Landspítala annist sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og greiningu. Niðurstaða á að geta legið fyrir samdægurs og er gert ráð fyrir að farþegar geti farið til síns heima eða á gististað þegar hún liggur fyrir.
Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í dag þar sem kynntar voru tilslakanir á ferðatakmörkunum til landsins. Sérstakur stýrihópur gerði tillögur um málið sem kynntar voru og samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögurnar á blaðamannafundinum sem sex ráðherrar voru viðstaddir og til svara á.
Í fyrsta lagi sagði Katrín að sóttvarnalæknir hefði nú lagt til við heilbrigðisráðherra að nýjar reglur gildi um sóttkví þeirra sem hingað koma frá 15. maí. Er þar um að ræða útvíkkun á svokallaðri sóttkví B sem við hana hefur verið stuðst þegar fólk er að koma hingað til starfa og getur þá verið í sóttkví á sínum vinnustað til dæmis. Nú munu starfsmenn í öðrum greinum, m.a. kvikmyndatökumenn og íþróttamenn geta farið í sóttkví með þeim hætti.
Þá hefur sóttvarnalæknir einnig lagt til og það verið samþykkt að Færeyjar og Grænland teljist ekki lengur til hááhættusvæða.
Hvattir til að hlaða niður appinu
Katrín minnti á að næstu skref í tilslökunum takmarkana hér innanlands verði tekið þann 25. maí og það þriðja um miðjan júní. Hér hefur náðst góður árangur í baráttunni við faraldurinn en í löndum í kringum okkur, m.a. Þýskalandi, væru bylgjur að koma upp aftur. „Heimsbyggðin er ekki laus við þessa veiru, því miður“. Engu að síður sagði Katrín stefnt að því að eigi síðar en 15. júní geti ferðamenn sem koma til landsins átt val um að í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví geti þeir annað hvort farið í skimun á Keflavíkurflugvelli eða framvísað vottorði sem metið er fullgilt af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Jafnframt verður fólk sem hingað kemur hvatt til að hlaða niður smitrakningarappínu. Til að gæta ítrustu varkárni verður reynslan af þessu fyrirkomulagi metin að tveimur viknum liðum og ákvörðun um framhaldið tekin.
Katrín sagði að í þriðja lagi verði unnin hagræn greining á þessum valkosti. „Slík skimun kallar á umfang en við teljum okkur í stakk búin til að fara í þetta verkefni,“ sagði forsætisráðherra. „Þetta gæti líka orðið tækifæri til að læra meira um þessa veiru sem við erum enn að kynnast, því miður, átta okkur á útbreiðslu hennar í hópi þeirra sem hingað koma og deila þeim upplýsingum með heiminum.“
Sagðist hún líta á þetta sem varfærið skref. Brýnt væri að tryggja að enginn „komi inn til landsins með þessa veiru í farteskinu.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við RÚV eftir kynningu Katrínar að alltaf væri hætta á bakslagi. Hér hafi gengið vel að aflétta takmörkunum og alltaf kæmi að þeim tímapunkti að við yrðum að opna okkar landamæri. „Ég held að við séum að gera þetta á eins góðan og öruggan máta og hægt er.“