Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að hámarksfjárhæð stuðningslána, sem lítil fyrirtæki sem orðið hafa fyrir drjúgu tekjufalli geta sótt um, verði 40 milljónir í stað þeirra 6 milljóna sem upphaflega var lagt upp með af hálfu stjórnvalda.
Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihlutans um frumvarpið, þar sem fjallað er um stuðningslánin og einnig lokunarstyrkina sem fyrirtækjum sem hafa þurft að loka vegna sóttvarnaráðstafana munu standa til boða.
Samkvæmt tillögum meirihluta nefndarinnar verður full ríkisábyrgð á stuðningslánum upp að 10 milljónum króna, en 85 prósenta ríkisábyrgð á þeirri fjárhæð sem fer umfram það mark.
Nefndarmeirihlutinn leggur einnig til að stuðningslánin standi mun fleiri fyrirtækjum til boða en áður var áætlað, en lagt er til að fyrirtæki með allt að 1.200 milljóna króna árlega veltu geti sótt um þessi lán, í stað þess að hámarksveltan verði 500 milljónir.
Áætlað umfang ábyrgðar ríkissjóðs á stuðningslánum, nái breytingartillögur meirihluta nefndarinnar fram að ganga, er um 40 milljarðar króna. Áður hafði verið gert ráð fyrir að ábyrgðin næmi um 28 milljörðum króna.
Bönkum ekki skylt að lána meira en 10 milljónir króna
Lánastofnunum verður ekki skylt að veita lán sem eru hærri en 10 milljónir króna, jafnvel þó að fyrirtæki uppfylli skilyrði fyrir því að fá lánin. Í nefndarálitinu segir að um lán hærri en 10 milljónir gildi „um margt önnur sjónarmið“, þar sem lánastofnunin beri hluta áhættunnar.
Ríkisendurskoðun benti á í umsögn sinni um frumvarpið að mögulega væri verið að fela lánastofnun að fara með tiltekið opinbert vald og meirihluti nefndarinnar telur að veigamikil rök séu fyrir því að ákvarðanir um veitingu lána með fullri ríkisábyrgð teljist stjórnvaldsákvarðanir.
Meirihluti nefndarinnar leggur því til að ákvæði verði sett inn í lögin þess efnis að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um stuðningslánin og sömuleiðis að bönkunum verði ekki falið mat á því hvort rekstraraðilar eigi rétt á stuðningsláni eða ekki.
„Meiri hlutinn telur mikilvægt að lánastofnunum verði kleift að taka ákvörðun um lánveitingar þar sem þær bera hluta áhættunnar á eigin forsendum og án þess að vera bundnar af þeim málsmeðferðar- og efnisreglum sem stjórnsýslulög mæla fyrir um,“ segir í áliti nefndarinnar.