Meirihluti fyrirtækja í landinu telja að kreppan vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 muni standa í allt eitt ár hið minnsta. Alls segjast 30 prósent forsvarsmanna aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins að þeir telji að hún muni standa lengur en það en 25 prósent þeirra telja að hún muni standa í allt að eitt ár.
Einungis einn af hverjum fimm telja að kreppan gangi yfir á skemur en fjórum mánuðum. Að jafnaði er búist við að kreppan standi yfir í tólf mánuði.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins (SA) meðal forsvarsmanna aðildarfyrirtækja samtakanna.
Búið að segja upp 5.600 og önnur eins hrina á leiðinni
Á meðal annarra niðurstaðna sem könnunin leiddi fram eru að 70 prósent fyrirtækjanna sem hún náði til hafa urðu fyrir tekjumissi í aprílmánuði. Þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum hafa gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Í þeim hefur til að mynda falist að lækka starfshlutfall eða stytta opnunartíma.
Rúmlega 40 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum sem svöruðu könnuninni. Uppsagnir náðu til rúmlega þrjú prósent starfsmanna þeirra. Það svarar til um 5.600 uppsagna í viðskiptahagkerfinu í heild.
Miðað við svörin sem fengust er fyrirliggjandi að önnur eins bylgja af uppsögnum sé framundan. Rúmlega 20 prósent fyrirtækja áforma frekari uppsagnir og SA áætlar að þær muni ná til um 5.500 manns. Langflestar uppsagnirnar verða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Mismunandi ánægja með aðgerðarpakkana
Í könnuninni var einnig spurt um aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Sá fyrri var kynntur 21. mars en sá síðari nákvæmlega mánuði síðar, eða 21. apríl.
Úr fyrri pakkanum töldu flestir forsvarsmennirnir að hlutastarfaleiðin og laun í sóttkví hefðu gagnast mest enda tóku þær aðgerðir gildi strax. Athygli vekur að einungis 25 prósent aðspurðra sagði að brúarlán til atvinnulífsins hefðu gert eitthvert eða mikið gagn. Alls sögðu 53 prósent fyrirtækjanna að aðgerðapakkinn í heild hefði gert eitthvert eða mikið gagn.
Aðeins minni ánægja er með síðari aðgerðarpakkann, en undir helming forsvarsmanna fyrirtækjanna töldu að hann hefði gert eitthvert eða mikið gagn. Einungis einn af hverjum tíu sagði hann raunar hafa gert mikið gagn. Mesta var ánægjan með jöfnun tekjuskatts með tapi 2020 og frekari sókn til nýsköpunar. Minnst var ánægjan með hina svokölluðu lokunarstyrki.