Umhverfisstofnun hyggst ráðast í innviðauppbyggingu á um 30 stöðum á landinu á þessu ári. Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt svarinu mun heildarkostnaður framkvæmdanna vera um 844.345.000 krónur en þessi tala felur ekki í sér framkvæmdir á þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi þar sem þær eru nú í útboðsferli.
Fram kom á vef Umhverfisstofnunar þann 8. maí síðastliðinn að framkvæmdir væru hafnar við endurnýjun á göngustíg og útsýnispalli á efra svæði við Gullfoss.
Verið væri að útbúa hjáleið frá Gullfosskaffi að stiga. Leið að útsýnispalli á efra svæði yrði lokuð á meðan framkvæmdir standa yfir. Við neðra bílastæði eru engar framkvæmdir í gangi, samkvæmt Umhverfisstofnun, og fært er niður að fossi.
„Umhverfisstofnun biður gesti velvirðingar á þeirri röskun sem þessar þessar framkvæmdir gætu haft í för með sér en minnir jafnframt á ábatann sem af hlýst, íslenskri náttúru til verndar,“ segir á vefnum.