Heildarkostnaður Lögmannafélags Íslands, vegna málaferla sem félagið stóð í gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni og lauk með dómi Hæstaréttar í lok apríl, nam í heildina tæpum 10,8 milljónum króna frá árinu 2017.
Þar af runnu 8,55 milljónir króna til LOGOS lögmannsþjónustu vegna starfa Óttars Pálssonar og annarra lögmanna stofunnar fyrir Lögmannafélagið, auk þess sem Lögmannafélagið var dæmt til þess að greiða rúmar 2,2 milljónir í málskostnað vegna málsins gegn Jóni Steinari, sem Lögmannafélagið tapaði fyrir Hæstarétti.
Farið var sérstaklega yfir kostnað Lögmannafélagsins af málinu á aðalfundi Lögmannafélagsins í dag á Hótel Nordica í dag, en fundinum var einnig streymt í beinni útsendingu á YouTube.
Málið sem um ræðir hófst eftir að úrskurðarnefnd lögmanna gerði Jóni Steinari að sæta áminningu vegna framgöngu sinnar í samskiptum við Ingimund Einarsson, þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, árið 2016.
Í þeim samskiptum sakaði Jón Steinar meðal annars dómstjórann um „hroka og yfirlæti“, sagðist kenna í brjósti um hann og sagði hann ekki virðast vera í góðu jafnvægi.
Ingimundi blöskraði orðbragðið í tölvupóstskeytum Jón Steinars til hans og sendi erindi um málið til stjórnar Lögmannafélagsins, sem ákvað að láta úrskurðarnefnd lögmanna fara yfir málið.
Jón Steinar hlaut í kjölfarið formlega áminningu frá úrskurðarnefndinni. Hann vildi ekki fella sig við áminninguna og höfðaði ógildingarmál, sem teygði sig alla leið upp í Hæstarétt.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst fyrst að þeirri niðurstöðu að áminningin mætti standa, en Landsréttur komst svo að þeirri niðurstöðu í fyrra að fella ætti áminningu úrskurðarnefndar lögmanna úr gildi.
Lögmannafélagið áfrýjaði niðurstöðu Landsréttar í málinu til Hæstaréttar, sem klofnaði 3-2 í málinu, en dæmdi Jóni Steinari í vil.
Nokkrar umræður spunnust um málið, lyktir þess og kostnaðinn sem hér er fjallað um á aðalfundi Lögmannafélagsins í dag og hafði Jón Steinar sjálfur sig þar töluvert í frammi.