Fossvélar hyggjast vinna allt að 27,5 milljónir rúmmetra af efni til viðbótar úr Ingólfsfjalli í Ölfusi. Þórustaðanáma hefur verið starfrækt frá árinu 1957. Fyrirhugað efnistökusvæði er í sunnanverðu fjallinu og er um að ræða áframhaldandi efnistöku innan þess svæðis sem nýtt hefur verið. Svæðinu hefur því þegar verið raskað að frátöldu fyrirhuguðu efnistökusvæði efst á fjallinu. Heildarstærð efnistökusvæðisins að vinnslu lokinni yrði að mati Fossvéla 42,5 hektarar.
Ingólfsfjall er hlíðabratt móbergsfjall með hraunlögum inn á milli, einkum að neðan og í kolli. Hraunlögin efst í kollinum mynda bergstál eða hamra á þrjá vegu. Fjallið varð til um miðja ísöld og var sjávarhöfði í lok ísaldar þegar sjávarstaða var sem hæst.
Í nýframlagðri frummatsskýrslu um umhverfisáhrif áframhaldandi efnistöku kemur fram að svæðið er hvorki friðlýst né á náttúruminjaskrá. Jafnframt er ekki um að ræða jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Sú jarðmyndun sem mest gildi hefur er grár mjög sérstakur klettamúli, Silfurberg, sem skagar suður úr vesturhorni fjallsins. Jarðmyndunin er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Silfurberg er utan áhrifasvæðis framkvæmdarinnar.
Vinnsla efnis úr Þórustaðanámu hefur staðið yfir áratugum saman og mikið efni hefur því verið tekið þaðan. Í frummatsskýrslunni segir að reynslan hafi sýnt að staðsetning námunnar sé mjög hentug með tilliti til nálægðar við byggðarlög í örum vexti og í nálægð við Suðurlandsveg. „Mikilvægt er að fá efni sem ekki þarf að flytja langar vegalengdir, fá efni sem unnið er úr námu með tilskilin leyfi og að haga efnistökunni á þann hátt að sem minnst áhrif verði á umhverfið.“
Í skýrslunni er bent á að stórframkvæmdir séu fyrirhugaðar í nágrenni námunnar á næstunni, m.a. tvöföldun Suðurlandsvegar og ný brú yfir Ölfusá.
Efnistaka, líkt og orðið gefur til kynna, felur í sér að jarðefni eru tekin og flutt annað. Þau jarðefni sem eru innan efnistökusvæðisins munu því hverfa að hluta og eftir verður geil í suðurhlíð Ingólfsfjalls. Á þetta við bæði um móbergið, sem er uppistaðan í fjallinu, sem og grágrýtið á toppi fjallsins. Jarðefni verða flutt á brott og eru beinu áhrifin því varanleg og óafturkræf.
Ingólfsfjall er áberandi fjall sem gnæfir yfir flatlendinu og sker sig frá fjalllendinu í Grafningi í norðri og vestri þar sem það skagar lengra til suðurs út á flatlendið. Brattar hlíðar fjallsins til suðurs, vesturs og austurs skapar skörp skil á milli fjalllendisins og láglendisins sem umlykur það. Þórustaðanáma er sýnileg víða að frá svæðum sunnan við hana. Áhrif á landslag gætir nú þegar, þar sem efnistaka hefur verið á svæðinu síðustu áratugi. Einnig hafa verið gerðar slóðir og vegir um svæðið og háspennulína liggur fram hjá námunni, segir í frummatsskýrslunni.
Áforma efnistöku úr fjallstoppi
Að mati Fossvéla hafa mestu áhrif efnistökunnar þegar komið fram og munu íbúar og vegfarendur ekki verða varir við að rasksvæði námunnar stækki, „það einfaldlega færist lengra inn í fjallið,“ segir í skýrslunni. „Óraskað svæði á toppi fjallsins sem raskast verður fyrir neikvæðum sjónrænum áhrifum en mjög fáir eru á ferli þar uppi og eru sjónræn áhrif þess rasks því takmörkuð.“
Þá segir að fyrst um sinn eftir að efnistöku lýkur verði áferð efnistökusvæðisins frábrugðin öðrum hlutum fjallshlíðarinnar, „en með tíð og tíma munu vatn, vindar og jarðskjálftar veðra og móta hlíðina og gefa henni náttúrulega áferð og yfirbragð. Það er þó langur tími þar til að efnistöku verður lokið og þangað til verða augljós ummerki af efnistöku í Þórustaðanámu eins og verið hefur. Þegar horft er til þessara atriða eru áhrif áframhaldandi efnistöku í Þórustaðanámu á landslag og ásýnd metin talsvert neikvæð“.
Ferðamenn og vegfarendur á svæðinu sem helst verða fyrir áhrifum frá Þórustaðanámu er göngufólk sem gengur upp á Ingólfsfjall um Djúpadal, skammt austan Þórustaðanámu, og svo vegfarendur sem stoppa á áningarstað Vegagerðarinnar við Kögunarhól.
Gönguleið upp á Ingólfsfjall er um Djúpadal, rétt austan við Þórustaðanámu. Á gönguleiðakorti Ferðafélags Árnesinga, þar sem merktar eru átta mismunandi gönguleiðir upp á fjallið, er gönguleið um Djúpadal þar á meðal. Gönguleiðin er sögð um 1,1 km upp á fjallsbrún og er flokkuð sem erfið gönguleið. „Efnistaka í Þórustaðanámu hefur ekki hamlað uppgöngu um Djúpadal hingað til og að mati framkvæmdaaðila hefur umferð göngufólks og starfsemi Fossvéla á svæðinu farið saman án þess að hafa áhrif hvor á aðra. Engin stækkun er fyrirhuguð á athafnasvæði námunnar í átt að Djúpadal. Núverandi gönguleið upp Ingólfsfjall um Djúpadal verður því áfram opin og öllum aðgengileg,“ segir í frummatsskýrslunni.
Niðurstaða matsins er að heildaráhrif framkvæmdarinnar verði óveruleg. Í því felst að áhrif framkvæmdarinnar eru minniháttar frá því sem nú er, með tilliti til umfangs svæðisins og viðkvæmni þess fyrir breytingum, ásamt þeim litla fjölda fólks sem verður fyrir beinum áhrifum. Náman er sýnileg frá stóru svæði en umfang þeirra áhrifa munu aukast óverulega við áframhaldandi nýtingu, að mati framkvæmdaaðila. Bein áhrif eru metin staðbundin en sjónræn áhrif ná til mun stærra svæðis.
Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 4. júní 2020 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.