Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði á daglegum blaðamannafundi almannavarna í dag að listi yfir þau fyrirtæki sem nýtt hafa sér hlutabótaleið stjórnvalda yrði birtur. Listinn væri þó ekki enn tilbúinn.
„Þetta tölvukerfi var ekki hannað til þess að taka út lista yfir fyrirtækin eða greiðendur. Það þarf heilmikla handavinnu til. Þessu tölvukerfi var „riggað upp“ á mettíma, fyrst og fremst til þess að taka við umsóknum frá einstaklingum og greiða þeim. [...] Fyrirtækin voru í raun í aukahlutverki,“ sagði hún.
Hún sagði að í þessum töluðu orðum væri verið að skoða með hvaða hætti Vinnumálastofnun næði þessum upplýsingum úr kerfinu þannig að hægt væri að setja þær í birtingarhæfan búning.
Unnur lýsti sinni persónulegu skoðun á málinu á fundinum í dag. „Ég er ennþá svolítið hugsi þrátt fyrir álit Persónuverndar – og hef stuðning persónuverndarfulltrúa stofnunarinnar í því – hvort að það sé rétt að birta lista yfir fyrirtæki, til dæmis með fimm starfsmenn eða færri. Og þá er ég náttúrulega að hugsa um það traust sem ég tel að þurfi að ríkja á milli okkar og skjólstæðinga okkar.“
Hún sagði að það hefði verið heilagt hjá Vinnumálastofnun að það myndi aldrei fara út fyrir veggi stofnunarinnar hverjir væru að leita til þeirra.
Unnar nefndi einnig frumvarp sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem sett yrði í lög leyfi til að birta þessar upplýsingar. Henni finnst að bíða ætti eftir þeim lögum.
„En það verður að minnsta kosti – svo því sé til haga haldið – ekkert að frétta af þessu um þessa helgi og varla fyrr en einhvern tímann um miðja næstu viku. Við þurfum aðeins að skoða þetta og hafa sannfæringu fyrir því að listinn sé réttur og að hann sé birtur með þeim hætti sem við sættum okkur við.“