Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa komist að samkomulagi um nýjan kjarasamning, sem gildir til 30. september árið 2025. Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.“
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir mikla ánægju með að langtímasamningur við flugmenn sé í höfn.
„Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Gerðar voru verulegar breytingar á samningnum sem tryggja aukið vinnuframlag flugmanna og gefa félaginu aukinn sveigjanleika til þróunar á leiðakerfi Icelandair. Með þessu eru flugmenn að leggjast á árarnar með félaginu til framtíðar,“ er haft eftir Boga Nils í fréttatilkynningu félagsins.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að samningurinn sem undirritaður var í nótt sé „tímamótasamningur“.
„Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn tryggir að félagið er vel í stakk búið að til að sækja fram á hvaða markaði sem er til langrar framtíðar og nýta þau tækifæri sem sannarlega munu skapast,“ er haft eftir formanninum.