Ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í dag frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra sem kveður á um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að gera megi ráð fyrir að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins nemi um 27 milljörðum. „Þegar tekið hefur verið annars vegar tillit til þess kostnaðar sem ætla má að hefði ella fallið til vegna frekari nýtingar á hlutastarfaleiðinni og aukinna útgjalda Ábyrgðasjóðs launa og hins vegar út frá því sem áætlað er að endurheimtist vegna skattalegra ráðstafana má telja að kostnaður við þetta úrræði verði u.þ.b. 15 ma.kr. meiri en því næmi.“
Frumvarpinu er ætla að koma til móts við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegri fjárhagslegri röskunar á atvinnurekstri vegna COVID-19 farsóttarinnar. Markmið stuðningsins er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og tryggja réttindi launafólks, að því er fram kemur í tilkynningunni.
- Stuðningurinn nemur að hámarki 85 prósent af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti.
- Að hámarki 633.000 krónur á mánuði vegna launa
- Að hámarki 85.455 krónur á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda
- Að hámarki 1.014.000 krónur vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf.
- Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.
Þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði
Enn fremur kemur fram hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að atvinnurekandi þurfi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Uppsögn launamanns, sem ráðinn hafði verið fyrir 1. maí 2020, þarf að vera vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
- Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda hafi dregist saman um 75 prósent frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns miðað við fyrri tímabil.
- Atvinnurekandi skal ekki hafa ákveðið að greiða út arð, lækka hlutafé, greiða óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf eða ráðist í sambærilegar aðgerðir frá 15. mars 2020.
- Atvinnurekandi skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann skal hafa staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum og öðrum skýrslum og skilagreinum þar með talið CFC skýrslum til Skattsins sl. þrjú ár áður en umsókn barst og staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
- Bú atvinnurekanda hafi hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.
- Atvinnurekandi skal hafa staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum fyrir sama mánuð.
„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vænkist hagur atvinnurekanda innan ákveðins tíma njóti það launafólk sem sagt er upp störfum með stuðningi hins opinbera forgangs til sambærilegs starfs og það gegndi áður og njóti áunninna réttinda í starfi,“ segir í tilkynningunni.
Atvinnurekandi skuldbindi sig til að greiða ekki út arð
Samkvæmt frumvarpinu skal tekjufæra stuðningsfjárhæðina í skattskilum atvinnurekenda. Hún verði nýtt til jöfnunar taps á því ári sem stuðningur fæst og til jöfnunar yfirfæranlegs rekstrartaps fyrri ára, eftir því sem við á. Það sem umfram er verði fært í sérstakan sjóð meðal eiginfjár sem tekjufærður verður á næstu sex rekstrarárum, 10 próosent ár hvert fyrstu tvö árin og 20 prósent á ári næstu fjögur árin þar á eftir.
Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi skuldbindi sig til að gera ekki tilteknar ráðstafanir, svo sem að greiða út arð, fyrr en stuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður. Lagt er til að atvinnurekandi geti leyst sig undan þeirri skuldbindingu með því að endurgreiða, með verðbótum og vöxtum, þann hluta fjárstuðnings sem þá er ótekjufærður.
Úrræðið tekur til þeirra sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. Það gildir ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Lagt er til að Skatturinn sjái um framkvæmd úrræðisins og að umsóknarferlið verði rafrænt.