Tvö fjölmiðlafyrirtæki, Árvakur og Sýn sem reka vefmiðlanna Mbl.is og Vísi.is, voru samanlagt með 75 til 85 prósent markaðshlutdeild í sölu auglýsinga í íslenskum vefmiðlum á síðasta ári. Þetta kemur fram í tölum sem Samkeppniseftirlitið birti í áliti sínu vegna kaupa Torgs ehf., útgefanda Fréttablaðsins og tengdra miðla, á Frjálsri fjölmiðlun, útgefanda DV og tengdra miðla.
Tölunum var safnað saman með því að senda gagnabeiðni til þeirra fjölmiðla sem samantektin nær á meðan að Samkeppniseftirlitið var með samruna fyrirtækjanna tveggja til vinnslu.
Í samantektinni kemur fram að meðaltal daglegrar dekkunar hjá Mbl.is sé 60,7 prósent en 59,5 prósent hjá Vísi.is.
Í álitinu segir að þegar litið er til auglýsingasölu í vefmiðlum sé Árvakur stærsti aðili á markaði með tæplega helmingshlutdeild og Sýn sé með tæpa þriðjungshlutdeild.
Það þýðir að allir aðrir vefmiðlar sem starfa á Íslandi skipta með sér 15 til 25 prósent markaðshlutdeild.
RÚV, stærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, má ekki samkvæmt lögum selja auglýsinga á netinu. RÚV fær hins vegar 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekna af útvarpsgjaldi á ári auk þess sem fyrirtækið hafði 2,2 milljarða króna í tekjur úr samkeppnisrekstri í fyrra. Þar er aðallega um að ræða sölu auglýsinga í ljósvaka og kostun á efni.
Tveir prentmiðlar með allt að 85 prósent tekna
Samkeppniseftirlitið tók líka saman tölur um hlutdeild prentmiðla út frá tekjum. Niðurstaðan þar var að Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, væri með 40 til 45 prósent allra tekna sem renni til dagblaða á Íslandi vegna útgáfu þeirra og Torg, sem gefur út Fréttablaðið, væri með 35 til 40 prósent þeirra. Samanlögð markaðshlutdeild þeirra miðað við tekjur af útgáfu dagblaða er því 75 til 85 prósent.
Í áliti Samkeppniseftirlitsins segir að meirihluti tekna Árvakurs sé vegna áskriftar- og lausasölu Morgunblaðsins. Nær allar tekjur Torgs vegna Fréttablaðsins eru hins vegar af auglýsingasölu. Þar segir einnig að samþjöppun á prentmiðlamarkaði vegna samruna Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar sé lítil „þar sem tekjur prentmiðils DV eru litlar.“
Lestur bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, og raunar allra íslenskra prentmiðla, hefur kúvenst á örfáum árum. Fyrir áratug mældist lestur Fréttablaðsins 64 prósent og lestur Morgunblaðsins 34,8 prósent. Í síðustu mælingu Gallup sögðust 37,2 prósent aðspurðra lesa Fréttablaðið og 23,6 prósent Morgunblaðið. Lestur Fréttablaðsins hefur því dalað um 42 prósent á tíma og lestur Morgunblaðsins um 32 prósent. Þegar lestur aldurshópsins 18 til 49 ára er skoðaður kemur í ljós að lestur Fréttablaðsins hefur farið úr 63,8 prósentum í 27 prósent á tíu árum, og því dalað um 58 prósent. Lestur Morgunblaðsins hefur á sama tímabili farð úr 25,1 prósent í 13,4 prósent, og því dregist saman um 47 prósent. Útgáfudögum Fréttablaðsins var nýverið fækkað úr sex í fimm þegar það hætti að koma út á mánudögum. Morgunblaðið hefur undanfarin ár verið reglulega í frídreifingu á fimmtudögum og er því í raun fríblað einu sinni í viku.
Eitt annað blað er gefið út í stóru upplagi á Íslandi, Mannlíf. Það er fríblað sem kemur út einu sinni í viku. Lestur þess mælist 16,1 prósent.
Lestur annarra prentmiðla með minni útbreiðslu hefur einnig dalað mikið. Fyrir um níu árum síðan, skömmu eftir að mælingar hófust að nýja á lestri DV, lásu 14,2 prósent landsmanna blaðið. Í dag segjast 5,5 prósent lesa það, eða 62 prósent færri en í maí 2011. Vert er að taka fram að útgáfudögum DV hefur verið fækkað í millitíðinni. Viðskiptablaðið hefur líka dalað mikið í lestri frá því að lestur á því blaði náði hámarki í þeirri útgáfu sem blaðið hefur verið í eftir bankahrun. Mestur mældist lestur þess í maí 2015, eða 12,4 prósent. Nú mælist hann 5,5 prósent og hefur því dregist saman um 56 prósent á fimm árum. Lestur bæði DV og Viðskiptablaðsins hefur aldrei mælst minni en í apríl 2020 en bæði blöðin koma út einu sinni í viku og eru seld í áskrift.