Alls voru rúmlega 5.700 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í apríl og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast miðað við sama mánuð í fyrra. Atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi er nú um 16 prósent, og þá er ekki talinn með sá fjöldi erlendra ríkisborgara sem nú eru í minnkuðu starfshlutfalli vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á atvinnulífið.
Sá fjöldi er á níunda þúsund, en erlendir ríkisborgarar voru um fjórðungur þeirra nærri 34 þúsund einstaklinga sem nýttu hlutabótaúrræði stjórnvalda í apríl, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði, sem birt var á föstudag.
Heildaratvinnuleysi í apríl var 17,8 prósent samanlagt, en þar af var 7,5 prósenta almennt atvinnuleysi og 10,3 prósent voru í minnkuðu starfshlutfalli. Langflestir þeirra sem skráðir voru í minnkað starfshlutfall voru skráðir í það allan mánuðinn og að meðaltali var bótahlutfallið 59,6 prósent.
Þeir sem voru á hlutabótaleiðinni voru því að meðaltali í rösklega 40 prósent starfshlutfalli hjá sínum vinnuveitendum, en alls fóru um 20.500 manns niður í 25 prósent starf og 7.500 manns í 50 prósent starf.
Lítið er orðið um nýskráningar í hlutabótaúrræðið og 15. maí höfðu um 7.500 manns af þeim nærri 34 þúsund sem voru í minnkuðu starfshlutfalli ýmist farið til baka í fyrra starfshlutfall eða verið sagt upp störfum. Vinnumálastofnun áætlar að svipað margir hafi farið hvora leið.
Atvinnuleysi eykst hlutfallslega mest meðal ungs fólks
Í skýrslu Vinnumálastofnunar sést að hlutfall ungs fólks sem sótti um hlutabótaúrræðið er hærri en hlutur þeirra á vinnumarkaði segir til um, en 27 prósent allra þeirra sem nýttu sér hlutabótaúrræðið voru á aldrinum 18-29 ára og 26 prósent voru í næsta aldurshóp þar fyrir ofan, 30-39 ára. Rúmur helmingur allra sem nýttu úrræðið í apríl voru því undir fertugu.
Fjölgun hefðbundinna atvinnuleitenda frá mars og þar til í apríl var einnig mest í yngsta aldurshópnum, 18-24 ára. Alls voru 2.256 einstaklingar á þeim aldri án vinnu í lok apríl og fjölgaði þeim um 24 prósent frá því í mars. Til samanburðar fjölgaði hefðbundnum atvinnuleitendum um tæp 16 prósent í aldurshópunum 30-59 ára.
Bótahlutfallið hæst í ferðatengdu greinunum
Augljóst er að ferðaþjónustan í landinu á erfitt uppdráttar þessa dagana, enda engir ferðamenn að koma hingað, hótelherbergin eru meira og minna tóm, bílaleigubílarnir standa óhreyfðir og viðskiptavinum veitingastaða fækkar svo um munar.
Áhrif þessa sjást í tölum Vinnumálastofnunar, en 37 prósent allra þeirra einstaklinga sem nýttu hlutabótaúrræðið í apríl, starfa í flugi og ferðaþjónustu. Bótahlutfallið í þessum ferðatengdu greinum var einnig hærra en almennt í öðrum atvinnugreinum.
Nánar niðurbrotið voru 10 prósent allra þeirra starfsmanna sem nýttu hlutabótaleiðina í apríl í veitingarekstri, 9 prósent í gistiþjónustu og 7 prósent í flugstarfsemi, en 12 prósent í annarri ferðatengdri starfsemi.
Um 21 prósent þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli í apríl starfa í verslun og flutningastarfsemi og segir Vinnustofnun að þar vegi smásöluverslun þyngst.
Um 18 prósent þeirra sem nýtt hafa úrræðið starfa svo í iðnaði, byggingariðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði, um 13 prósent í ýmis konar þjónustustarfsemi á almennum markaði og um 11 prósent starfa í menningar- og félagastarfsemi, opinberum rekstri eða persónulegri þjónustu.