Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að hann muni beita sér af krafti fyrir björgun Icelandair þegar stjórnendur fyrirtækisins hafa tryggt framtíð félagsmanna VR án þess að gengið verði á réttindi þeirra og launakjör.
Hann hefur gagnrýnt harðlega stjórnendur Icelandair á undanförnum vikum en hann sagði þann 11. maí síðastliðinn að aldrei hefði verið mikilvægara en nú að standa í lappirnar og verja réttindi launafólks. „Við erum í raunverulegu stríði um lífskjör okkar og framtíð. Starfsfólk Icelandair stendur nú í fremstu víglínu í þessu stríði. Ekki til að bjarga sínu eigin skinni heldur fyrir okkur öll,“ sagði hann.
Ragnar Þór hafði áður minnst á að leitun væri að stjórnendum sem stigið hefðu fleiri feilspor í fyrirtækjarekstri og stjórnendur Icelandair. Þeir hefðu þó nú náð „að toppa sig, ótrúlegt en satt, með árásum á sitt eigið starfsfólk sem er hið raunverulega verðmæti fyrirtækisins“.
Hvaða leið vilja Íslendingar fara?
Ragnar Þór bendir á í stöðuuppfærslunni á Facebook í dag að rætt hafi verið um að flugfélögin Bláfugl og Play geti fyllt í skarðið fari svo að Icelandair verði gjaldþrota. Þannig væri hægt að halda uppi flugsamgöngum til og frá landinu tímabundið. En hann spyr hvort þetta sé virkilega leiðin sem Íslendingar vilji fara.
„Fá hér flugfélög í skattaskjólsbraski sem veigra sér ekki við að úthýsa störfum til Indlands eða Filippseyja eða hverra landa sem réttindi og laun eru lægst fyrir mestu vinnuna? Setja svo restina á gerviverktöku í gegnum starfsmannaleigur?“ spyr formaðurinn.
Hann segir jafnframt að þó ekki sé nema út frá flugöryggissjónarmiðum þá hljóti metnaður Íslendinga að vera meiri en þetta.
Rætt hefur verið um að flugfélögin Bláfugl (e. Bluebird Nordic) og Play geti fyllt í skarðið fari svo að...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Monday, May 18, 2020