Þrettán fyrirtæki nýttu hlutabótaleið stjórnvalda fyrir 150 starfsmenn eða fleiri hvert í síðasta mánuði. Í heildina voru þessi þrettán fyrirtæki með um 14 prósent allra þeirra starfsmanna sem nýttu sér hlutabótaúrræðið, eða vel á fimmta þúsund manns.
Átta af þessum fyrirtækjum eru í ferðaþjónustutengdri starfsemi, fjögur í verslun og eitt í iðnaði, samkvæmt því sem fram kemur í nýjustu skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.
Langstærst þessara fyrirtækja er Icelandair, sem setti 92 prósent allra starfsmanna sinna í minnkað starfshlutfall í mars.
Um tvö þúsund þeirra var síðan sagt upp í stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar í lok apríl, eftir að stjórnvöld lýstu því yfir að í vændum væri frumvarp sem fæli í sér að ríkið myndi greiða bróðurpart launa starfsmanna á uppsagnarfresti.
Um 73 prósent fyrirtækja með 1-3 starfsmenn í skertu starfshlutfalli
Alls nýttu 6.320 fyrirtæki sér hlutabótaúrræði stjórnvalda í apríl, en langflest voru þau einungis með einn til þrjá starfsmenn í skertu starfshlutfall. Þannig var háttað hjá um 4.600 fyrirtækjum, eða um 73 prósentum allra fyrirtækja sem nýttu hlutabótaleiðina.
Vinnumálastofnun hefur verið beðin um að birta lista yfir öll þau fyrirtæki sem nýtt hafa hlutabótaleiðina, en það hefur ekki enn verið gert.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri stofnunarinnar hefur haft áhyggjur af því að slíkt stangist á við persónuverndarsjónarmið þar sem í tilfelli minni fyrirtækja sé auðvelt að persónugreina einstaka starfsmenn. Álit Persónuverndar var þó að birting listans stangaðist ekki á við ákvæði laga um persónuvernd.
„Ég er ennþá svolítið hugsi þrátt fyrir álit Persónuverndar – og hef stuðning persónuverndarfulltrúa stofnunarinnar í því – hvort að það sé rétt að birta lista yfir fyrirtæki, til dæmis með fimm starfsmenn eða færri. Og þá er ég náttúrulega að hugsa um það traust sem ég tel að þurfi að ríkja á milli okkar og skjólstæðinga okkar,“ sagði Unnur á upplýsingafundi almannavarna síðasta föstudag.
Spá 14,8 atvinnuleysi í maí
Samanlagt atvinnuleysi á íslenskum vinnumarkaði í lok apríl var 17,8 prósent, en almennt atvinnuleysi var 7,5 prósent og til viðbótar var 10,3 prósent vinnumarkaðarins á hlutabótaleiðinni. Þeir sem fengu hlutabætur voru að meðaltali í rösklega 40 prósenta starfshlutfalli.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysið verði 14,8 prósent í lok þessa mánaðar, en þann 15. maí höfðu um 7.500 manns þegar skráð sig af hlutabótaleiðinni, ýmist vegna þess að þeim hafði verið sagt upp störfum eða gátu snúið til baka í sitt fyrra starf í kjölfar tilslakana á sóttvarnaráðstöfunum.
Vinnumálastofnun áætlar að um helmingur hafi farið hvora leið og gerir ráð fyrir að frekari fækkun verði á hlutabótaleiðinni í maí. Stofnunin býst við því að allmargir þeirra sem fara af hlutabótum vegna uppsagna komi inn á atvinnuleysisskrá þegar uppsagnarfresti þeirra lýkur þegar líður á sumarið.