Alls voru 125 starfsmenn Íslandspósts í minnkuðu starfshlutfalli í aprílmánuði, en opinbera hlutafélagið nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda. Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts staðfestir þetta í svari við fyrirspurn Kjarnans og segir nokkrar ástæður fyrir því að Pósturinn nýtti sér þetta úrræði.
Í fyrsta lagi segir hann að nánast allar erlendar sendingar hafi horfið úr kerfi fyrirtækisins í kjölfar COVID-19 og að tekjutapið af þeim sökum verði allavega hálfur milljarður á árinu, sem sé mikið högg fyrir reksturinn. „Við vitum í raun ekki hvenær eða hvort allt þetta magn kemur til baka enda alls óvíst hvað tekur við í framhaldinu, bæði þegar litið er á samgöngur og einnig vilja eða getu fólks til að panta erlendis frá á krepputíma,“ segir Birgir.
Einnig segir hann að orðið hafi meiri samdráttur í bréfum en gert var ráð fyrir, með tilheyrandi tekjutapi. Forstjórinn segir að innlendar pakkasendingar hafi aukist nokkuð vegna aukningar í netverslun, en það vegi þó ekki upp tekjutapið nema að litlum hluta.
Magnminnkunin hafi leitt til þess að verkefni hafi minnkað eða jafnvel horfið hjá hluta starfsmanna, og að auki hafi verið ómögulegt fyrir hluta starfsmanna að sinna störfum sínum vegna tilmæla almannavarna og sóttvarnalæknis, til dæmis vegna fjöldatakmarkana og lokun mötuneyta.
„Hlutabótaleiðin er hugsuð til þess að verja ráðningarsamband og með því að nýta okkur hana keyptum við okkur tíma til að sjá hvernig málin þróast hjá okkur, við erum að vonast til þess að magnið erlendis frá vaxi aftur en ef ekki þá munum við þurfa að grípa til erfiðra aðgerða enda er ekki hægt að hafa starfsfólk án verkefna og ekkert fyrirtæki getur verið með fólk á launum ef það eru ekki tekjur á móti,“ segir Birgir í svari sínu.
Hann segir alla starfsmenn sem voru á hlutabótaleiðinni nú komna aftur til starfa, en engin trygging væri fyrir því að erlenda magnið kæmi allt til baka þrátt fyrir að aukning hefði verið merkjanleg undanfarnar vikur.
„Við sjáum ekki fyrir okkur að nýta þetta úrræði frekar en hefur verið gert, þetta var fyrst og fremst gert með það í huga að hjálpa okkur að taka mesta höggið og sjá hvernig málin þróuðust þannig að við gætum tekið betri ákvarðanir þegar fram líða stundir,“ segir Birgir.
Hann segir að hafa verði í huga að þrátt fyrir að Pósturinn hafi verið að rétta úr kútnum á síðustu mánuðum hafi verið mikill taprekstur hjá fyrirtækinu á undanförnum árum og eins og staðan sé í dag sé fyrirtækið „mjög brothætt“ og þoli illa mikil skakkaföll í rekstrinum.
Fyrirtæki en ekki stofnun
Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að ríkisfyrirtæki eins og Íslandspóstur nýti sér hlutabótaúrræðið, en Birgir segir að það verði að „horfa til þess að Pósturinn er fyrirtæki en ekki stofnun og stjórnendum ber skylda til þess að reka það sem slíkt og nýta öll úrræði til þess að hámarka hagkvæmni í rekstrinum.“
Hann bætir við að úrræðið hafi ekki verið nýtt á fyrsta ársfjórðungi og hafi því ekkert að gera með jákvæða afkomu Íslandspósts á fyrsta hluta ársins.
„Pósturinn hefur verið að grípa til ýmissa aðgerða til að hagræða í rekstrinum og mun halda því áfram, lykilstjórnendur fyrirtækisins hafa lagt mikla áherslu á að verja þann góða árangur sem fyrirtækið hefur náð og afþökkuðu til að mynda kjarasamningsbundnar launahækkanir á þessum miklu óvissutímum. Við munum halda áfram að vinna að því að þjónusta viðskiptavini okkar sem best á sama tíma og við ætlum okkur að skila skilvirkara og öflugra fyrirtæki í öllum þáttum rekstrarins,“ segir Birgir.