Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mótmælir harðlega því sem lýst er í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag sem hugsanlegum viðbrögðum Icelandair í kjaradeilu félagsins við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ). Í báðum tilvikum er vísað til heimilda innan Icelandair. Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins skoðar Icelandair möguleika á að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og samkvæmt Fréttablaðinu hyggst Icelandair láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi náist ekki samningur.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu ASÍ vegna frétta um Icelandair sem sambandið sendi frá sér í dag.
Í henni segir að þessar vangaveltur séu settar fram á mjög viðkvæmu stigi samningaviðræðna og virðist tilgangurinn vera að hafa áhrif á starfsemi FFÍ og reka fleyg í samstöðu félagsmanna. Þær byggi einnig á mikilli vanþekkingu á íslenskri og alþjóðlegri vinnulöggjöf og kjarasamningi FFÍ.
Segist ekki hafa verið í viðræðum við önnur stéttarfélög
Fram kom í frétt RÚV nú rétt fyrir hádegi að Icelandair hefði ekki verið í viðræðum við önnur stéttarfélög um gerð kjarasamnings um störf flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu. Þetta kemur fram í bréfi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til Flugfreyjufélags Íslands í dag. „Það staðfestist hér með að Icelandair hefur ekki verið í viðræðum við önnur stéttarfélög um gerð kjarasamnings um störf flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu. Það hefur verið markmið félagsins frá upphafi viðræðna að tryggja nýjan kjarasamning á milli Icelandair og FFÍ sem tryggir hagsmuni beggja aðila og vonast Icelandair enn til þess að slík niðurstaða náist fram í tæka tíð,“ segir Bogi Nils, að því er fram kemur í frétt RÚV.
Við þetta verði ekki unað í íslensku samfélagi
Alþýðusamband Íslands áréttar í yfirlýsingu sinni að stéttarfélög séu félög launafólks sem njóta verndar í stjórnarskrá og að atvinnurekendum sé óheimilt að skipta sér af. Icelandair geti ekki sjálft stofnað til eða haft frumkvæði að stofnun stéttarfélaga. Við slíkt atferli verði ekki unað í íslensku samfélagi og Icelandair hollt að hafa í huga að aðildarfélög ASÍ hafi heimildir til þess að veita FFÍ stuðning í yfirstandandi kjaradeilu með boðun samúðarvinnustöðvana og fulla heimild til þess að verja réttarstöðu sína gegn ólögmætum árásum.
Raungerist fyrrnefndar vangaveltur eigi Icelandair ekkert tilkall til stuðnings úr opinberum sjóðum eða viðbótarhlutafjár úr lífeyrissjóðum launafólks. ASÍ krefst þess að stjórnvöld stígi fram og taki af öll tvímæli um að þau hyggist ekki styðja ólögmætt og ósiðlegt athæfi Icelandair.
Flugfreyjur staðið sameinaðar og komið fram af heilindum í kjaraviðræðum
Drífa Snædal, forseti ASÍ, bendir á í yfirlýsingunni að flugfreyjur hafi verið samningslausar lengi. Þær hafi staðið sameinaðar og komið fram af heilindum í kjaraviðræðum. Að mæta þeim á þessu stigi samningaviðræðna með hótunum um að ganga gegn lögum og leikreglum á íslenskum vinnumarkaði sé með öllu óviðunandi.
„Framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hefur verið með ólíkindum og er til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð þessa rótgróna flugfélags. Þetta er ekki flugfélagið okkar allra sem býður okkur velkomin heim. Við munum ekki sætta okkur við aðferðir sem á ensku eru kallaðar union busting og ganga út á að grafa undan samstöðu launafólks og eyðileggja verkalýðsfélög. Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum,“ segir hún.