Stjórn Eflingar lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Eflingar vegna kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands sem samþykkt var í dag.
Fram kom í fréttum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins í morgun að Icelandair íhugaði að ráða flugfreyjur sem standa fyrir utan Flugfreyjufélag Íslands ef ekki náðust samningar við stéttarfélagið. Enn fremur að sett yrði á laggirnar nýtt stéttarfélag fyrir þær flugfreyjur sem fylgja Flugfreyjufélaginu ekki að málum og látið reyna á ákvæði þess efnis fyrir félagsdómi.
Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna kórónuveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.
Telja slíka starfshætti grófa ögrun við lög og venjur
„Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.
Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skiling aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á,“ segir í ályktuninni.
Enn fremur kemur fram að verkafólk eigi skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur sé mannréttindi og varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk eigi ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.
Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust, að því er fram kemur í ályktuninni.
Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum
Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair sé að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóti að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.
Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið haldi nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafni því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.
Forstjórinn neitar þessu
Fram kom í frétt RÚV í morgun að Icelandair hefði ekki verið í viðræðum við önnur stéttarfélög um gerð kjarasamnings um störf flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu. Þetta kom fram í bréfi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til Flugfreyjufélags Íslands í dag. „Það staðfestist hér með að Icelandair hefur ekki verið í viðræðum við önnur stéttarfélög um gerð kjarasamnings um störf flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu. Það hefur verið markmið félagsins frá upphafi viðræðna að tryggja nýjan kjarasamning á milli Icelandair og FFÍ sem tryggir hagsmuni beggja aðila og vonast Icelandair enn til þess að slík niðurstaða náist fram í tæka tíð,“ segir Bogi Nils, að því er fram kemur í frétt RÚV.