Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að það væri ekki endilega merki um að eitthvað mikið væri að í viðskiptaumhverfinu á Íslandi að einhver samþjöppun ætti sér stað.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann út í rekstrargrundvöll lítilla fyrirtækja hér á landi í ferðaþjónustunni.
„Lítil fyrirtæki eiga af einhverjum ástæðum færri málsvara hér inni þrátt fyrir að þau séu hryggjarstykkið í verðmætasköpun í landinu og stuðningur við þau sé forsenda aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Samþjöppun í atvinnulífinu er því miður mjög vel þekkt afleiðing kreppu. Þegar við horfum núna fram á mikinn samdrátt, jafnvel algjört frost í ferðaþjónustu, eykst hætta á þessari samþjöppun. Eignarhaldið færist á færri hendur, verðmætustu störfin flytjast úr fámenninu, hin verða eftir. Við sitjum uppi með miðstýrðari, einsleitari og fátæklegri ferðaþjónustu,“ sagði Logi.
Þingmaðurinn spurði hvort ráðherra hefði áhyggjur af þessu. Hvort bankar og sjóðir – jafnvel í eigu ríkisins – veldu að aðstoða stór fyrirtæki sem þau hefðu veðjað á til að kaupa önnur minni en spennandi fyrirtæki sem væru í ferðaþjónustu um allt land.
„Teldi hann það ekki vera grátleg niðurstaða ef þessi kreppa leiddi til þess að ferðalög til Íslands yrðu með flugvél, í rútu, á hótel, niður í hvalaskoðunarbáta og enduðu í huggulegum sjóböðum þar sem fyrirtækin væru öll í eigu meira eða minna sömu eigendanna?“ spurði hann enn fremur.
Slæmt ef lítil eða meðalstór fyrirtæki gæfu hlutfallslega eftir
Bjarni svaraði og sagði að störfin væru flest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og þess vegna gæti hann tekið undir með Loga að yrði sú breyting vegna heimsfaraldursins að þau gæfu hlutfallslega eftir á móti stærri fyrirtækjunum væri það mjög slæmt.
„Það eru líkur til þess að við það myndi hreinlega fækka störfum í landinu. Meðal annars af þeirri ástæðu fór þingflokkur Sjálfstæðisflokksins um landið fyrr á þessu ári, sérstaklega til þess að sækja heim lítil fyrirtæki um allt land. Ég hygg að þegar upp var staðið höfum við sótt heim í kringum 100 fyrirtæki. Það sem við fengum skilaboð um í þessum heimsóknum var fjölbreytilegt, til dæmis að menn vilja fá að spreyta sig meira án opinberra afskipta. Reglubyrðin komst oft til tals og launatengdu gjöldin sem við höfum verið að lækka í þessari ríkisstjórn með því að taka tryggingagjaldið niður í smáum skrefum. Við skulum líka hafa í huga að þegar rætt er um stór fyrirtæki sem greiða skatta til samfélagsins og skipta verulega miklu máli í bland við lítil fyrirtæki voru þau líka í eina tíð lítil. Lítil fyrirtæki eru sum hver í vexti og vilja taka meira til sín og við eigum ekki að berjast gegn því.
Þegar rætt er um ferðaþjónustuna er hárrétt að við sjáum, sérstaklega í dreifðari byggðum landsins, að ferðaþjónustufyrirtæki sem eru lítil að vöxtum eru mjög áberandi í hópi þeirra sem koma einstaklega illa undan áhrifum kórónuveirufaraldursins. Það er ástæða til að fylgjast með því hvernig við getum hjálpað þeim í gegnum þessa tíma. Ég tel að mörg þau úrræði ríkisstjórnarinnar sem hafa komið fyrir þingið gagnist þeim mjög vel,“ sagði Bjarni.
Þakkaði ráðherra fyrir ferðasöguna
Logi kom í síðara sinn í pontu og þakkaði Bjarna kærlega fyrir ferðasöguna. Hann sagði að ráðherra mætti kynna sér frumvarp sem hann sjálfur lagði fram um stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki „þar sem einmitt er tekið á þeim ábendingum sem hann fékk í þeirri ágætu ferð“.
Þingmaðurinn spurði enn fremur hvort ráðherrann hefði heyrt af því að þessi samþjöppun væri nú þegar hafin og hvort hann gæti jafnvel nefnt einhver dæmi. Og hvort frumvörpin og skilyrði fyrir stuðningi hefðu verið rýnd sérstaklega til þess að koma í veg fyrir samþjöppun.
„Og svo af því að nú liggur fyrir stjórnarfrumvarp sem beinlínis veikir samkeppnislöggjöf á Íslandi langar mig að spyrja samkvæmt orðum Gylfa Magnússonar: Verður látið undan háværum kröfum stórfyrirtækja og samtaka þeirra um að veikja íslenskt samkeppniseftirlit eða fær almenningur að njóta þeirrar verndar sem hann hefur notið til þessa? Með öðrum orðum: Í ljósi kreppunnar sem nú er uppi, getur ráðherra hugsað sér að taka frumvarpið aftur inn á teikniborðið og skoða það með hagsmuni neytenda í huga?“
„Verðum að skoða málið út frá aðeins víðara sjónarhorni“
Bjarni svaraði en hann telur eins og áður segir það ekki endilega vera merki um að eitthvað sé mikið að í viðskiptaumhverfinu á Íslandi að einhver samþjöppun eigi sér stað.
„Við verðum að skoða málið út frá aðeins víðara sjónarhorni og þá sérstaklega að taka tillit til þess að rekstur margra smærri fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur verið erfiður. Hann hefur ekki verið að skila mikilli arðsemi og það getur einmitt verið frábær niðurstaða fyrir fyrirtæki, sem menn eru búnir að koma á fót og eiga sér einhverja framtíð en gengur illa að stækka með því litla eigin fé sem er til staðar, að ná samningum um sameiningu. Þannig geta menn skapað loksins verðmæti úr allri sinni vinnu þannig að ég vil ekki meina að samþjöppun sé sjálfgefið slæm. Við þurfum að passa upp á að samkeppnislögin þjóni bæði þeim markmiðum sem við höfum sérstaklega stefnt að með þeim en séu á sama tíma ekki of íþyngjandi fyrir atvinnustarfsemina,“ sagði Bjarni.