Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það séu ekki mikil samskipti milli hans og Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formanns flokksins, eins og er. Hann upplifi það þó ekki að köldu andi milli sín og Davíðs þótt að þá síðarnefndi hafi gagnrýnt flokksforystu Sjálfstæðisflokksins í leiðaraskrifum og Reykjavíkurbréfum fyrir að hafa villst af leið í stjórnmálum.
Bjarni segir, í viðtali sem birtist við hann í Mannlífi í dag, að sumt af því sem lögð sé áhersla á í Morgunblaðinu hafi komið honum á óvart. „Mér finnst Morgunblaðið heilt yfir almennt vera að tala fyrir til dæmis efnahagsstefnu sem er líkleg til árangurs en mér finnst alveg hafa verið dæmi um áherslur í blaðinu sem ég finn ekki samleið með.“
Borgaralegt blað sem lúti ekki fjarstýringu utan úr bæ
Áratugum saman hefur verið formlegt eða óformlegt samband milli Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Morgunblaðsins sátu til að mynda áratugum saman þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks, þótt slitið hafi verið á þau formlegu tengsl seint á síðustu öld.
Undanfarin ár hefur farið minna fyrir þessu sambandi og gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins orðið algengari í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins þrátt fyrir að í stafni sitji fyrrverandi formaður flokksins.
Skýrasta dæmið um þetta birtist í Reykjavíkurbréfi sem birt var í júní í fyrra. Þar skrifaði Davíð, í bréfi þar sem umfjöllunarefnið var að uppistöðu Sjálfstæðisflokkurinn, meint fjarlægð hans frá kjósendum sínum og þriðji orkupakkinn, að Morgunblaðið væri „borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Þetta rof á sambandi flokks og blaðs hefur einnig birtist í hina áttina. Það vakti til að mynda mikla athygli í maí í fyrra, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð 90 ára, að formaður hans ákvað að birta afmælisgrein í Fréttablaðinu ekki Morgunblaðinu. Sú ákvörðun þótti senda skýr skilaboð um hvernig formaðurinn teldi samband flokksins við gamla málgagnið standa.