Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), vilji frekar að peningum sé „dælt fyrirtækjamegin inn í hagkerfið, þar sem skjólstæðingar hans geta stjórnað því hversu mikið rennur í raun inn í íslenska hagkerfið og hversu mikið inn á aflandsreikninga, í spákaupmennsku, mútugreiðslur í Afríku og guð má vita hvað.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Viðar birti á Facebook.
“Því miður er engin samstaða um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum” segir Eyjólfur Árni formaður SA. Hann...
Posted by Vidar Thorsteinsson on Thursday, May 21, 2020
Tilefnið er ræða Eyjólfs Árna á aðalfundi SA á miðvikudag, þar sem hann var endurkjörinn formaður með tæplega 97 prósent greiddra atkvæða. Í ræðunni sagði Eyjólfur Árni meðal annars að það blasti við að fyrirtæki landsins muni eiga erfitt með að standa undir launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum og að fylgja þeim eftir muni við núverandi aðstæður muni einungis leiða til meira atvinnuleysis en ella. „Því miður er engin samstaða um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum, sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu okkar, né ríkir samstaða um að finna leiðir til að tryggja sem best atvinnu fólks og hag fyrirtækjanna sem greiða laun þess. Tjón þeirrar sundrungar er þegar orðið mikið og mun fara vaxandi. Fyrir því verður launafólk fyrst og fremst.“
Væri hollt að kynna sér grunnatriði í hagfræði
Viðar segir í stöðuuppfærslu sinni að tillögu Samtaka atvinnulífsins hafi ekki síst verið hafnað fyrir tilstilli Eflingar. Eyjólfur Árni þekki ekki aðstæður viðsemjenda sinna vel ef hann haldi að það að svíkja þá um umsamdar launahækkanir sé lausn á nokkrum vanda. „Vandi yfirstandandi kreppu er vandi almennings, fólksins í landinu, og sér í lagi láglaunafólks, þeirra sem reiða sig á varnir kjarasamningstaxta. Það er mikið hjálpræði í því að samningar um lágmarkstaxta eru bindandi fyrir allan vinnumarkaðinn og studdir öflugum lagaramma. Þeir eru stoð sem ekki brestur og í því er ómetanlegur styrkur fyrir launafólk sem nú þegar hefur mátt taka á sig miklar byrðar vegna faraldursins.“
Hann segir að Eyjólfi Árna væri hollt að kynna sér grunnatriði í hagfræði, því viðbótartekjur með taxtahækkunum hinna lægst launuðu renni yfirleitt beint til neyslu í nærhagkerfinu, sem aftur skapi aukna innlenda eftirspurn og þar með atvinnutækifæri. „En auðvitað vill Eyjólfur frekar að peningunum sé dælt fyrirtækjamegin inn í hagkerfið, þar sem skjólstæðingar hans geta stjórnað því hversu mikið rennur í raun inn í íslenska hagkerfið og hversu mikið inn á aflandsreikninga, í spákaupmennsku, mútugreiðslur í Afríku og guð má vita hvað. Ekki af því að það sé betra fyrir efnahaginn eða atvinnusköpun heldur af því að það er betra fyrir skjólstæðinga hans.“