Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, áformar að tvöfalda Suðurlandsveg frá vegamótum við Bæjarháls að Hólmsá ofan Reykjavíkur. Lagður verður 2 + 2 vegur og tengingum fækkað frá því sem nú er. Byggð verða þrenn mislæg vegamót; við Breiðholtsbraut, Norðlingavað og Hafravatnsveg. Gerðir verða nýir reið-, hjóla- og göngustígar.
Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi allra fararmáta og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg með því að aðskilja akstursstefnur. Vegurinn verður tvöfaldaður í allt að fimm áföngum og er framkvæmdinni ætlað að leysa umferðarmál til næstu áratuga.
Þetta kemur fram í tillögu að matsáætlun fyrir hina fyrirhuguðu framkvæmd sem nú hefur verið auglýst á vef Skipulagsstofnunar.
Framkvæmdinni verður skipt í að minnsta kosti fimm áfanga og í fyrstu tveimur verður vegurinn tvöfaldaður án mislægra vegamóta. Ný akbraut verður lögð að mestu norðan núverandi vegar. Aðlaga þarf tengingar mislægra vegamóta við Bæjarháls og tengingar við hringtorg við Breiðholtsbraut. Við vegamót Breiðholtsbrautar er landrými takmarkað og einnig þrengdi bygging bensínstöðvar Olís að vegsvæði við Rauðavatnsskóg. Á þeim vegkafla verður lagður vegur með þröngu þversniði.
Við Norðlingavað þarf í fyrri áföngum að tvöfalda hringtorg. Suðurlandsvegur liggur síðan á bökkum Bugðu (Hólmsár) austan Norðlingaholts og verður áhersla á að raska ekki ánni og árbakkanum.
Í áföngum 3 til 5 verða mislæg vegamót byggð við öll vegamótin á kaflanum nema við Heiðmerkurveg.
Árið 2009 gerði verkfræðistofan EFLA tillögu að matsáætlun vegna breikkunar Suðurlandsvegar sem var samþykkt af Skipulagsstofnun. Í kjölfarið var gerð frummatsskýrsla og nauðsynlegar rannsóknir tengdar þeirri vinnu voru framkvæmdar. Ekki var farið út í framkvæmdir á þessum tíma og því var frummatsskýrsla ekki send til Skipulagsstofnunar.
Suðurlandsvegur er hluti af hringveginum og er aðalsamgönguleiðin suður og austur um land. Vegurinn um fyrirhugað framkvæmdasvæði er ein akrein í hvora átt. Tvöfalt hringtorg er við Breiðholtsbraut og einfalt hringtorg er við Norðlingavað. Bílastæði eru beggja vegna við veg hjá Rauðavatnsskógi þar sem fjölmargir stöðva og fólk sameinast í bíla fyrir ferðir austur fyrir fjall eða til að fara í gönguferðir í Rauðavatnsskógi og á Hólmsheiði.
Mikil umferð er um veg við Rauðhóla til og frá Heiðmörk og um Hafravatnsveg og þurfa vegfarendur oft að sæta lagi til að komast inn á veginn. Nokkur íbúðar- og sumarhús eru sunnan Suðurlandsvegar og hefur markvisst verið unnið að því á undanförnum árum að fækka tengingum og gera þær öruggari. Enn er þó hægt að aka inn á veginn á átta stöðum til viðbótar því sem að ofan er talið.
„Öllu fyrirhuguðu framkvæmdasvæði hefur verið umbylt á undanförnum áratugum þannig að þar er vart að finna náttúrulegt gróðurlendi eða óhreyfða jarðmyndun,“ segir í skýrslunni. Á svæðinu við Rauðavatn hafa verið lagðir stígar og landið jafnað. Við sunnanvert vatnið hefur verið fyllt út í það til að koma núverandi Suðurlandsvegi fyrir ásamt reiðstíg og göngustíg.
Rauðavatn og nágrenni þess er vinsælt útivistarsvæði. Vatnið hvílir á fremur lekum grágrýtisgrunni og án afrennslis á yfirborði. Vatnasviðið er um 3 km². Miklar vatnsborðssveiflur einkenna vatnið og því er strandsvæði vatnsins lítt gróið. Skógurinn við Rauðavatn, sem gengur undir nafninu Rauðavatnsstöðin eða Rauðavatnsskógur er í grunninn einn elsti ræktaði skógur Íslands. Ræktun hófst á svæðinu að tilstuðlan danskra frumkvöðla í skógrækt og landgræðslu árið 1901. Við framkvæmdina verður reynt að skerða hann sem allra minnst, segir í skýrslunni.
Heildarflatarmál lands sem fer undir mannvirki til viðbótar þeim vegum og stígum sem fyrir eru verður um 40 hektarar og heildarlengd vega sem verða tvöfaldaðir er um 5,3 kílómetrar. Svæðið er að mestu í eigu Reykjavíkurborgar en nokkur svæði eru í eigu einstaklinga. Nokkuð er um leigulóðir, bæði sumar- og heilsárshúsa.
Helstu áhrif á framkvæmdatíma felast í beinum áhrifum á því landsvæði sem fer undir veg. Þeir þrír valkostir sem til skoðunar eru fyrir mislæg vegamót við Breiðholtsbraut fela allir í sér fyllingar í Rauðavatni. Lagt verður mat á umfang og áhrif fyllinga í Rauðavatni vegna mismunandi valkosta. Vegfyllingar geta einnig haft áhrif á lífríki. Nýr vegur og mislæg vegamót hafa einnig sjónræn áhrif.
Leita þarf leyfis hjá Umhverfisstofnun þar sem framkvæmdasvæðið liggur um friðlýst svæði, fólkvanginn Rauðhóla. Í reglugerð fólkvangsins segir: „Óheimilt er að gera á svæðinu mannvirki né gera jarðrask, nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Eftirlit með fólkvanginum er í höndum Umhverfissviðs Reykjavíkur.“
Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 8. júní 2020 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.