Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein margra landa um allan heim. Á hverju ári ferðast hundruð milljóna manna heimshorna á milli til að kynnast nýjum stöðum, framandi menningu, njóta sólar eða fjölbreytts dýralífs. En faraldur kórónuveirunnar hefur sett ferðaþjónustu um víða veröld í uppnám. Útgöngubönn, samkomubönn, strangar takmarkanir á flugi milli landa og þar fram eftir götunum hafa gert það að verkum að þó að fólk vilji gjarnan ferðast hefur það síðustu mánuði verið næstum ómögulegt.
En á næstu dögum og vikum ætla mörg ríki, meðal annars í Evrópu, að gera ákveðnar tilslakanir svo að ferðast megi á ný. Sum ætla að gera greiðfært til næstu nágrannalanda, mynda nokkurs konar ferðabandalög, önnur fara enn varfærnari skref og opna landamærin fyrir íbúum eins lands.
Þó að möguleikinn á ferðalagi sé fyrir hendi er ekki þar með sagt að allir telji óhætt að ferðast. Frönsk stjórnvöld vilja til dæmis síður að Frakkar fari til annarra landa í sumar. Heldur hvetja þau til ferðalaga innanlands. Bandaríkjamenn eru ennþá hvattir til að ferðast ekki að nauðsynjalausu, svo dæmi séu tekin. Veiran hefur greinst í 177 löndum heimsins og í sumum þeirra er faraldurinn enn mjög útbreiddur og jafnvel ekki búinn að ná hámarki.
Ytri landamæri Evrópusambandsins eru enn lokuð og verða það til 15. júní eða þar til annað kemur í ljós. Framkvæmdastjórn sambandsins hefur gefið út ráðleggingar um hvernig opna megi landamærin og samtímis gæta öryggis, m.a. með sýnatökum. Mælst er til þess að ástandið verði ekki notað til að mismuna borgurum ólíkra landa en að ef gögn um útbreiðslu faraldursins séu sambærilega uppbyggð milli landa sé hægt að nota þau til að opna fyrr fyrir borgurum sumra ríkja en annarra. Þá ítrekar framkvæmdastjórnin að öryggi íbúa og ferðamanna séu höfð að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku.
Faraldurinn getur blossað upp aftur
Hættan á annarri og svo í kjölfarið þriðju bylgju faraldursins er fyrir hendi. Ljóst er að fólk sem sýnir engin einkenni sjúkdómsins getur verið með veiruna og smitað aðra. Sýnatökur við landamæri, líkt og íslensk stjórnvöld hafa boðað, eru því hluti af þeim aðgerðum sem ráðist verður í þegar lífi verður á ný blásið í ferðalög fólks.
Einn stærsti óvissuþátturinn, fyrir þá sem treysta sér í ferðalög milli landa yfir höfuð, er auðvitað hvernig hægt er að komast á áfangastað. Flugferðir eru í augnablikinu mjög takmarkaðar en með opnun landamæra er þó vonast til þess að flugfélög taki við sér og hefji á ný áætlunarflug í einhverjum mæli.
Hér að neðan má finna nokkur dæmi um fyrirætlanir ríkja næstu vikur og mánuði.
Stjórnvöld í Tékklandi stefna að því að losa um ferðatakmarkanir til Mið-Evrópu og annarra ríkja þar sem tekist hefur að ná tökum á faraldrinum frá og með 8. júní. Tékkland var á meðal fyrstu Evrópuríkjanna sem lokuðu landamærum sínum vegna faraldursins. Meðal landa sem opna á fyrir eru Austurríki, Króatía og Slóvakía sem hafa öll tekið skref í sömu átt. Þá verða Pólland og Þýskaland einnig fljótlega á lista yfir þau lönd sem Tékkar geta ferðast til og frá. Í júlí er svo stefnt að því að þeir geti ferðast til Grikklands.
Grikkland slapp betur en mörg önnur lönd undan faraldrinum. Stjórnvöld vonast til að fá til sín fyrstu erlendu ferðamennina um miðjan júní en millilandaflug hefst líklega í lok þess mánaðar. Líkt og víða annars staðar þurfa ferðamenn að fara í sýnatöku á flugvöllum við komuna til landsins.
Stjórnvöld á eyjunni Möltu í Miðjarðarhafi hafa einnig hug á því að opna „öruggar leiðir“ til annarra svæða. Ferðamálaráðherrann segir að settar verði ýmis konar reglur þessu tengt svo sem um fjarlægðarmörk í flugi, samskiptum á milli fólks og þar fram eftir götunum.
Spánverjar ætla að fara að taka á móti erlendum ferðamönnum í júlí. Spánn er eitt þeirra landa sem fór einna verst út úr faraldrinum. Gripið var til strangra aðgerða og útgöngubanna þar í landi en nú þegar farið er að losa um þær er opnun landsins fyrir ferðamönnum hluti af jöfnunni.
„Frá og með júlímánuði á Spánn von á ykkur,“ sagði forsætisráðherrann Pedro Sánchez í gær. „Það er komið að þessu... erlendir gestir geta farið að skipuleggja frí á Spáni.“
Um 80 milljónir ferðamanna koma alla jafnan til Spánar ár hvert. Höggið sem ferðaþjónustan þar í landi hefur orðið fyrir er gríðarlegt og miklir hagsmunir því í húfi þegar kemur að því að opna fyrir ferðamönnum að nýju. Að minnsta kosti milljón manna sem störfuðu í greininni misstu vinnuna á síðustu mánuðum.
Þýskaland hefur þegar opnað landamæri sín að ákveðnu leyti og frá og með miðjum júní er stefnt að því að nær allar hömlur heyri sögunni til. Þýska flugfélagið Lufthansa ætlar á næstu vikum að hefja áætlunarflug til tuttugu áfangastaða. Flogið verður til Mallorca, Krítar, Feneyja og Ibiza svo dæmi séu nefnd.
Yfirvöld á Seychelles-eyjum í Indlandshafi ætla að fara rólega í sakirnar og stefna á að hleypa aðeins ísraelskum ferðamönnum til sín í fyrstu.
Í byrjun júní geta ferðamenn svo heimsótt Cancun og fleiri vinsæla áfangastaði í Mexíkó er flugvellir landsins verða opnaðir fyrir millilandaflugi.
Ferðamenn geta farið að heimsækja Ítalíu á ný í byrjun júní. Landið varð mjög illa úti í faraldrinum og milljónir fóru ekki út úr húsi nema af brýnni nauðsyn í tvo mánuði. Í fyrstu er líklegt að aðeins aðrir Evrópubúar geti farið þangað án mikilla vandkvæða en ytri landamæri ESB verða lokuð til 15. júní þar til annað kemur í ljós.
Á ítölsku eyjunni Sikiley hefur verið brugðið á það ráð að niðurgreiða flugfargjöld áhugasamra gesta sem og kostnað við gistingu.
Nokkrar eyjar í Karabíska hafinu hafa einnig hug á því að lokka til sín gesti fljótlega og fyrirhuga opnun flugvalla í byrjun næsta mánaðar. Það vilja t.d. stjórnvöld Bandarísku jómfrúaeyja og Saint Lucia gera.
Bretar eru í miðjum faraldri og strangar samkomutakmarkanir eru enn í gildi. Forsætisráðherrann Boris Johnson greindi nýverið frá því að í byrjun júlí sé stefnt að opnun hótela og ferðamannastaða.
Ferðamenn geta svo farið að heimsækja Ísland aftur að nýju án þess að þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví upp úr miðjum júní. Allir sem koma til landsins þurfa að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli eða framvísa viðurkenndu vottorði um að þeir séu ekki sýktir.
Margir óvissuþættir fyrir hendi
Fleiri lönd eru í svipuðum pælingum og þau sem hér að ofan eru talin. Ljóst er að ferðalög milli Evrópulanda gætu orðið einhver á næstu vikum en hvað aðra heimshluta varðar er óvissan mikil, aðallega vegna þess að þó að áhuginn á ferðalögum sé fyrir hendi er ekki víst að þangað sé hægt að komast.
Fyrsta skrefið er að ákveða að opna landamærin. Það næsta er bíða og sjá hvort að flugfélögin taki við sér þó löskuð séu eftir efnahagsþrengingar síðustu vikna. Allt mun það fara eftir því hver eftirspurnin verður. Þriðja skrefið er svo að beita aðgerðum til að draga sem mest úr hættunni á nýjum smitum. Og krossa fingur og vona að önnur bylgja faraldursins fylgi ekki auknum ferðalögum fólks landa á milli.