Aðeins sex smit af kórónuveirunni hafa greinst hér á landi í maí. Ekkert smit greindist í gær. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að veiran sé enn úti í samfélaginu en að smitið sé almennt lítið. „Það sem er einkennandi fyrir þessa einstaklinga sem hafa greinst upp á síðkastið er að þeir eru ekki mikið veikir,“ sagði Þórólfur. „Og hvað þýðir það? Það er erfitt að segja til um það.
Það gæti verið að þetta séu einstaklingar sem hafi verið búnir með sín veikindi. Það gæti líka vel verið að það sé einhver þróttur að fara úr veirunni, hugsanlega. Allavega er tilhneigingin sú að veikindin hafa minnkað eftir því sem liðið hefur frá 28. febrúar. Það gæti gefið okkur hugsanlega vísbendingu um það að veiran sé ekki eins ágeng og slæm og hún var. En tíminn verður að leiða það í ljós. Það er örugglega smit þarna úti, það er lítið og við erum fljót að finna það og beita viðeigandi ráðstöfunum ef að svo fer.“
Þórólfur sagði ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hvernig veiran muni haga sér í haust og næstu ár. Miklar vangaveltur hafa verið um hverju hún gæti tekið upp á. Hann sagði að kórónuveirur almennt væru ekki þekktar fyrir það að valda árstíðabundnum sýkingum eins og inflúensan. Hann nefndi sem dæmi að veiran sem olli SARS hafi dáið út. „Það væri nýlunda ef þessi kórónuveira færi að valda árstíðabundnum, slæmum sýkingum. En þetta er ekki vitað. Við verðum bara að lifa nógu lengi til að sjá þetta, upplifa þetta.“
Í dag var síðasti upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19, í bili að minnsta kosti. Enginn liggur á spítala með COVID en í heilbrigðiskerfinu eru þó einstaklinga sem enn eru að glíma við eftirköst sjúkdómsins, sagði Þórólfur. Á fundinum ítrekaði hann að sjúkdómurinn væri enn lífshættulegur. Hann sagði rannsóknir á lyfjum sem gagnist við sjúkdómnum lofa góðu en að alltof snemmt sé að fagna sigri í þeim efnum.