Íslensk erfðagreining hefur ekki fengið greitt frá íslenska ríkinu vegna skimunar fyrir kórónuveiru, en þetta staðfestir heilbrigðisráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Kári Stefánsson forstjóri fyrirtækisins sagði í Kastljósi á miðvikudagskvöld að hann teldi kostnað Íslenskrar erfðagreiningar vegna skimana síðustu þrjá mánuði hafa numið um þremur milljörðum króna.
Hugmyndin um að Íslensk erfðagreining færi að skima fyrir veirunni kviknaði hjá fyrirtækinu sjálfu þann 6. mars, þegar kórónuveiran var byrjuð að ganga manna á milli hér innanlands. Þá bauðst fyrirtækið til þess að aðstoða heilbrigðisyfirvöld í baráttunni.
Þann sama dag ræddi Kári við mbl.is og sagði að fyrirtækið vildi leggja sitt á árarnar til að komast að því hvernig veiran væri að breiðast út í íslensku samfélagi.
„Við erum ekki að berja okkur á brjóst yfir því. Við erum ósköp einfaldlega að gera það sem okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að gera,“ sagði Kári.
Síðan hófst reyndar nokkurt þras um hvort leyfi þyrfti frá Vísindasiðanefnd til þess að framkvæma skimanirnar, en niðurstaðan varð sú að þess þyrfti ekki.
Hafa tekið rúm 39 þúsund sýni
Í kjölfarið byrjaði fyrirtækið að skima þjóðina og hefur til þessa tekið rúmlega 39 þúsund sýni úr einkennalausum einstaklingum vítt og breitt um landið, og eru enn að. Í heildina hafa rúmlega 60 þúsund COVID-19 sýni verið tekin á Íslandi.
Alls hafa 179 þeirra sýna sem Íslensk erfðagreining hefur tekið reynst jákvæð, og því hafa tæp 10 prósent allra þeirra 1.805 smita sem greinst hafa hér á landi greinst vegna skimana fyrirtækisins.