Danmörk hefur ákveðið að opna landamæri sín fyrir Íslendingum, Þjóðverjum og Norðmönnum frá og með 15. júní. Frá þessu greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra landsins á blaðamannafundi í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir við Kjarnann að von sé á góðum tíðindum frá Noregi líka.
Allir sem ferðast til Danmerkur eftir 15. júní verða að sýna fram á að þeir hafi bókað sér að minnsta kosti sex nátta dvöl í landinu, en þó ekki í Kaupmannahöfn. Danska stjórnin ekki, þar sem í höfuðborginni eru flest virk smit kórónuveirunnar.
Samkvæmt frétt DR sagði heilbrigðismálaráðherrann Magnus Heunicke á blaðamannafundi að ferðamenn mættu þó fara til Kaupmannahafnar í dagsferðir og skoða sig um og fara á veitingastaði. En þeir verða að gista annars staðar.
Von á góðum tíðindum frá Noregi líka
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við Kjarnann að hann hafi fengið að heyra af því í gær að von væri á góðum fréttum frá Danmörku í dag og nú hafa þær verið kynntar, en Guðlaugur Þór ræddi opnun landamæra á Norðurlöndunum á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann segir að við megum eiga von á jákvæðum fréttum frá Noregi líka.
Guðlaugur Þór segist einnig hafa fengið það staðfest í morgun að Færeyjar opni fyrir Íslendingum þann 15. júní líka. Þá verður Íslendingum heimilt að fara til Eistlands frá og með 1. júní.
Einnig verður Ísland í hópi þeirra ríkja sem Þjóðverjar munu opna fyrir, samkvæmt frumvarpi sem þar liggur fyrir þinginu.
Utanríkisráðherra segir að það megi meðal annars þakka öflugri hagsmunagæslu sem haldið hafi verið upp fyrir Íslands hönd varðandi opnun landamæra.