Vinnumálastofnun er að taka saman fjárhæðir sem runnu til fyrirtækja sem hafa óskað eftir því að endurgreiða hlutabætur starfsfólks síns. Unnið var að afstemningu á föstudag og umrædd fyrirtæki munu fá send skilaboð í þessari viku þar sem fram kemur hvaða fjárhæð hvert og og eins auk reikningsnúmers og kennitölu.
Þetta kemur fram í svari Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, við fyrirspurn Kjarnans.
Fjölmiðlar hafa varpað ljósi á að í hópi þeirra fyrirtækja sem nýttu sér hlutabótaleiðina hafi verið fyrirtæki sem eru í öflugum rekstri og búa yfir traustum efnahag. Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni um hlutabótaleiðina, sem birt var á fimmtudag, að ekki yrði séð af lögunum um leiðina né lögskýringargögnum að það hafi verið ætlunin að stöndug fyrirtæki myndu nýta sér leiðina.
Eftir umfjöllun fjölmiðla tilkynntu nokkur fyrirtæki að þau hefðu horfið frá nýtingu leiðarinnar og sum þeirra hafa boðað endurgreiðslu á framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Fyrst til að gera það var Skeljungur, þann 28. apríl, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að að minnsta kosti sjö fyrirtæki hafi boðað slíka endurgreiðslu.
Haft hefur verið eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að öllum fyrirtækjum sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina verði sent bréf þar sem óskað verður eftir rökstuðningi fyrir skerðingu starfshlutfalls. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur auk þess sagt að ef í ljós komi að fyrirtæki hafi nýtt sér úrræðið án „fullnægjandi skýringa“ sé ekki útilokað að farið verði fram á að þau endurgreiði ríkinu.
Umtalsverðar breytingar verða á hlutabótaleiðinni frá og með næstu mánaðamótum. Þá verða þau fyrirtæki sem ætla að nýta sér hlutabótaleiðina gert að staðfesta að þau hafi ekki í hyggju að greiða út arð til hluthafa, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en þremur milljónum króna á næstu árum.