Könnunarfyrirtækið Maskína leiðrétti á fimmtudag framsetningu Morgunblaðsins á könnun sem fyrirtækið vann fyrir hóp kaupmanna sem kallar sig Miðbæjarfélagið í byrjun mars. Í frétt blaðsins var því haldið fram niðurstöðurnar sýndu að „meirihluti“ íbúa höfuðborgarsvæðisins væri á móti því að göngugötur yrðu allt árið í miðborg Reykjavíkur til framtíðar, en svo er ekki.
Hið rétta er, eins og kemur fram í frétt á vef Maskínu sem sett var inn á þriðjudag eftir að rangar tölur úr könnuninni komu fram í umfjöllun Bylgjunnar, að niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að 44,2 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara í Reykjavík heldur einnig í nágrannasveitarfélögunum, séu á móti því að Bankastræti, Laugavegur alla leið frá Hlemmi að Þingholtsstræti og neðri hluti Skólavörðustígs verði gerður að göngugötu allt árið. Þetta er stærstur hluti aðspurðra, eins og nú segir í netútgáfu fréttar Morgunblaðsins.
En einungis ögn færri, eða 41,1 prósent aðspurðra, sögðust fylgjandi því að þetta svæði yrði gert að varanlegri göngugötu. 14,7 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru í hvorki afgerandi hlynntir því né andvígir. Það má því segja að íbúar höfuðborgarsvæðisins séu klofnir í afstöðu sinni til varanlegra göngugatna á þessu svæði, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Maskína spurði einnig hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins teldu sig líklegri eða ólíklegri til þess að heimsækja miðborg Reykjavíkur ef þessar breytingar yrðu gerðar. Stærstur hluti, eða 37,4 prósent, sagði að það myndi engu breyta fyrir sig, en 35,6 prósent aðspurðra sögðu að ólíklegra væri að þeir myndu heimsækja miðborgina eftir breytingar. Á móti sögðu 27 prósent aðspurðra að það væri líklegra að þeir myndu sækja miðborgina heim ef þar væru göngugötur allt árið.
Lagt var ranglega út frá niðurstöðum þessarar könnunar í leiðara Morgunblaðsins á föstudag. Þar var því haldið fram að í könnun Maskínu fyrir Miðbæjarfélagið hefði verið spurt um afstöðu Reykvíkinga til göngugatna í miðborginni, þegar hið rétta er að verið var að spyrja íbúa á höfuðborgarsvæðinu öllu, eins og kom fram í frétt blaðsins á fimmtudag. Niðurstöðurnar könnunarinnar voru svo sagðar sýna að „lokanastefna“ borgarstjórnarmeirihlutans væri komin í öngstræti.
Meirihluti Reykvíkinga er jákvæður gagnvart göngugötum
Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum látið Maskínu framkvæma árlegar kannanir á afstöðu Reykvíkinga til göngugatna í miðborginni. Niðurstöðurnar sýna að meirihluti Reykvíkinga er jákvæður gagnvart göngugötum.
Í nýjustu könnun Maskínu fyrir borgina, sem framkvæmd var í september í fyrra, voru 64,5 prósent aðspurðra borgarbúa jákvæðir gagnvart göngugötum í miðborginni og stærstur hluti aðspurðra, eða 28 prósent, sagðist vilja göngugötur allt árið. Rúm 20 prósent sögðust að einhverju leyti neikvæð í garð göngugatna.
Jákvæðni í garð göngugatna eykst eftir því sem fólk kemur oftar í miðborgina, en 79 prósent þeirra sem sögðust koma vikulega eða oftar í miðborgina sögðust jákvæðir gagnvart göngugötum. Það voru einnig 68 prósent þeirra sem komu allavega 1-3 sinnum í mánuði, en einungis 45 prósent þeirra sem koma í miðborgina sjaldnar en mánaðarlega.
Göngugöturnar orðnar varanlegar en samt bílar um allt
Göngugötur í miðborginni eru nú orðnar varanlegar. Sú ákvörðun var nýlega staðfest af borgaryfirvöldum, en um er að ræða Laugaveg frá Klapparstíg að Þingholtsstræti, Skólavörðustíg á milli Bergstaðastrætis og Laugavegar og Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu. Í sumar er svæðið raunar enn stærra og Laugavegurinn tímabundið göngugata alla leiðina að Frakkastíg.
Búið er að setja upp skilti sem banna akstur um göngugöturnar, en þeim er ekki lokað með hliðum eins og gert hefur verið undanfarin ár.
Ástæðan fyrir því er sú að samkvæmt nýjum umferðarlögum er ákveðnum hópum heimilt að fara um göngugötur á bíl. Þetta eru handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða og svo þeir sem sinna akstursþjónustu fatlaðra. Einnig mega lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar aka um göngugötur.
Þó eru mun fleiri á ferðinni á bílum sínum um göngugöturnar en þeir sem hafa til þess leyfi. Hafa margir vakið máls á því á samfélagsmiðlum undanfarna daga að ökumenn brjóti umferðarlögin og fari rúntandi niður Skólavörðustíg, Laugaveg og Bankastræti.
Er þetta göngugata eða ekki? 🤷♀️ pic.twitter.com/bQkomNp5Zb
— Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir (@thorhildurfjola) May 23, 2020
Ef fólk þekkir ekki þetta umferðarmerki sem þarna er beggja megin, eða sér það ekki(!) ætti það í alvöru að íhuga að selja bílinn og sleppa því að keyra. pic.twitter.com/nTX0CbwN4u
— Einar Fridriksson (@EinarKF) May 29, 2020