Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur hætt umfjöllun um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum. Það var gert eftir að Kolbeinn Óttarsson Proppé, framsögumaður málsins í nefndinni, lagði það til á fundi hennar í morgun. Afleiðingar þess eru þær að frumvarpið er þá ekki lengur á dagskrá og það þarf að leggja það fram að nýju eigi frumvarpið að verða að lögum.
Frá þessu er greint á vef RÚV en þar segir að í bókun Kolbeins vegna þessa hafi sagt að ýmsar spurningar hafi komið fram sem hefðu kallað á umfangsmeiri skoðun en færi væri á að fara í.
Kjarninn fjallaði ítarlega um frumvarpið í fréttaskýringu í morgun. Það var lagt fram í mars af forsætisráðherra og þá sagt að tilgangur þess væri að „auka gagnsæi í atvinnulífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins.“
Hörð gagnrýni
Fjölmargir hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands sagði að hætt væri við því að með frumvarpinu yrði „stigið skref til baka“ þar sem að ekki væri tryggt að málsmeðferðartími vegna upplýsingabeiðna myndi ekki lengjast verði það að lögum. Blaðamannafélag Íslands leggst alfarið gegn samþykkt frumvarpsins og það gerir Félag fréttamanna RÚV einnig.
Þá skilaði Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) umsögn í gær þar sem segir að frumvarpið muni gera framkvæmd upplýsingalaganna „bæði flóknari og óskilvirkari“. Einboðið sé að verði frumvarpið að lögum muni það valda enn tíðari og lengri töfum á afgreiðslu erinda á grundvelli upplýsingalaga.
Þar segir enn fremur að ÚNU vilji árétta að „sambærileg ákvæði um aðkomu þriðja aðila að málsmeðferð stjórnvalds, eins og frumvarpið felur í sér, eru ekki í norrænni löggjöf um upplýsingarétt almennings. Síðastnefnda atriðið endurspeglar enn fremur að sjónarmið sem hafa komið fram opinberlega um að þörf sé á breytingum á upplýsingalögum vegna laga[...]um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, eiga ekki við rök að styðjast.“
Samtök atvinnulífsins skiluðu líka inn umsögn um frumvarpið og lýstu yfir ánægju með það en lögðu líka til frekari breytingar. Meðal annars vilja samtökin að tekin verði upp gjaldtaka fyrir aðgang að upplýsingum frá hinu opinbera. Sá kostnaður myndi að uppistöðu falla á fjölmiðla sem leggja fram nær allar beiðnir sem hinu opinbera berast um upplýsingar. Þau vildu líka að tími til að afgreiða beiðni yrði tvöfaldaður og að þeim sem leitast eftir að fá upplýsingar verði gert að útskýra tilgang beiðninnar fyrirfram.
Forsætisráðherra, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að sér hugnaðist ekki hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um gjaldtöku vegna upplýsingabeiðna. „Eftir því sem ég sé þá kalla allar þessar umsagnir á miklu meiri vinnu í þetta mál þannig að ég hef það ekki í forgangi að þessu máli verði lokið núna. Ég tel að það sýni að við verðum að skoða þetta miklu betur.“
Nú hefur málið verið aflagt, að minnsta kosti sem stendur.