„COVID-19 kreppan hefur komið illa við vinnumarkaðinn með því að þurrka út þúsundir starfa í ferðaþjónustu. En hún hefur einnig afhjúpað veikleika sem voru fyrir hendi áður og felast í því að láglaunagrein í hálaunalandi búi til störf fyrir innflytjendur á meðan margir Íslendingar flytja búferlum til annarra landa og aðrir fá ekki störf við sitt hæfi innan lands.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í grein í nýjustu Vísbendingu sem kom út í lok síðustu viku þar sem hann fjallar um þá efnahagskreppu sem COVID-19 faraldurinn hefur leitt af sér.
Gylfi segir að eftir misheppnaða einkavæðingu banka í byrjun aldarinnar og mikinn vöxt ferðaþjónustu eftir bankahrunið sé nú lag að skipuleggja fram í tímann hvaða greinum eigi að hlúa að til þess að skapa vel launuð störf í framtíðinni. „Endurreisn ferðaþjónustu í sömu mynd og hún hafði fyrir daga farsóttarinnar er varla æskileg.“
Ósjálfbær vöxtur
Í greininni bendir Gylfi á að mikill vöxtur ferðaþjónustu síðustu árin hafi fært þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur sem unnt var að nota til þess að byggja upp gjaldeyrisforða, greiða niður erlendar skuldir og fjárfesta erlendis. En að öðru leyti hafi þessi mikli vöxtur ekki góður að öllu leyti.
Árið 2019 hafi fjárfesting í landinu farið lækkandi og atvinnuleysi vaxandi. Vöxtur atvinnuvegafjárfestingar náði hámarki árið 2015, var enn mikill árið 2016 en lækkaði og varð neikvæður árin 2018 og 2019. Samdrátturinn var þannig hafinn áður en farsóttin barst til landsins þótt hagvöxtur hafi enn mælst jákvæður árið 2019.
Fleiri fóru en komu
Gylfi segir að ein afleiðing vaxtar ferðaþjónustu hafi verið sú að fleiri Íslendingar fluttu til útlanda heldur en þeir sem fluttu aftur til Íslands þrátt fyrir mikinn hagvöxt og góðæri og á móti kom aðflutt, ódýrt vinnuafl til þess að fylla störf í greininni. „Stefnan, eða öllu heldur stefnuleysið, í atvinnumálum á Íslandi hafði í för með sér að fjöldi láglaunastarfa varð til og samsetning þjóðarinnar breyttist smám saman. En launahækkanir sem samið var um árið 2019 og komu ofan á aðrar hækkanir áranna 2015-2017 urðu til þess að kippa grundvellinum undan rekstri veitingastaða og margra gististaða. Greinin glímdi við of háan kostnað áður en COVID-19 barst til landsins og atvinnuleysi fór vaxandi.“
Hann segir að það sé á vinnumarkaði sem vandamálin blasi við. Ekki hafi verið lögð áhersla á að efla greinar sem búa til vel launuð störf. „Sú stefna var tekin á Norðurlöndum upp úr árinu 1990 að skapa umhverfi sem hjálpaði þekkingarfyrirtækjum að vaxa. En af einhverjum ástæðum var það ekki gert hér heldur ráðist í einkavæðingu banka og svo ósjálfbæran vöxt ferðaþjónustu. Ofan á þetta bætist að farsóttin þurrkar út láglaunastörfin í ferðaþjónustu og tæknivæðing skapar enn aðra ógn með því að gera sífellt fleiri störf úrelt.“