Alls bárust 23 tilkynningar um hópuppsagnir Vinnumálastofnun í maí þar sem 1.323 starfsmönnum var sagt upp störfum. Bætist það ofan á hópuppsagnir mars- og aprílmánaðar þar sem yfir 80 fyrirtæki sögðu upp nærri 5.900 manns. Í heild eru yfir 7.000 manns að missa vinnu vegna hópuppsagna frá maí og fram í september.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinnumálastofnun.
Stærsta einstaka hópuppsögn maímánaðar er frá Bláa lóninu þar sem 401 var sagt upp og því næst Flugleiðahótel þar sem 162 var sagt upp og loks Íslandshótel þar sem 159 misstu vinnuna. Isavia sagði 100 manns upp en þar var öllum boðin endurráðning á öðrum kjörum.
Þetta eru þriðju mánaðamótin í röð þar sem uppsagnir eru hjá Íslandshótelum og alls hefur 515 starfsmönnum verið sagt upp að því er fram kemur í frétt DV um málið. Þar er haft eftir Davíð Torfa Ólafssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að þau hótel sem verði opin í sumar verði að stærstu leyti mönnuð starfsfólki á uppsagnarfresti.
Flestar uppsagnirnar sem Vinnumálastofnun var tilkynnt um í maí voru úr ferðatengdri starfsemi; tíu í ýmiss konar ferðaþjónustu þar sem sagt var upp 720 manns, fjórar voru úr gistiþjónustu þar sem 400 var sagt upp störfum, ein úr þjónustustarfsemi þar sem 53 manns var sagt upp, ein úr verslunarstarfsemi þar sem 39 manns var sagt upp og tvær úr veitingaþjónustu þar sem 30 var sagt upp. Einnig voru tvær hópuppsagnir úr upplýsingatækni og útgáfustarfsemi þar sem 26 manns var sagt upp, ein úr iðnaði þar sem 24 var sagt upp, ein í fiskveiðum þar sem 21 starfsmanni var sagt upp og ein í farþegaflutningum þar sem 10 manns var sagt upp.
Uppsagnarfrestur þeirra sem sagt er upp í þeim hópuppsögnum sem nú eru að berast Vinnumálastofnun er í flestum tilvikum þrír mánuðir þannig að stofnunin áætlar að þann 1. september muni lang flestir þeirra sem sagt var upp nú í maí ljúka sínum uppsagnarfresti. Nokkrir missa vinnuna í júní og júlí.
Á heildina litið eru yfir 7.000 manns að missa vinnu vegna hópuppsagna frá maí og fram í september. „Í einhverjum tilvikum má gera ráð fyrir að fólk verði endurráðið áður en ráðningarsambandi lýkur, í einhverjum tilvikum er starfsmönnum boðin endurráðning á öðrum kjörum, einhverjir munu trúlega hafa fundið sér vinnu, hyggja á nám eða koma ekki inn á atvinnuleysisskrá af öðrum ástæðum,“ segir í tilkynningu Vinnumálastofnunar. „Þó verður að gera ráð fyrir að stærstur hluti þeirra muni koma inn á atvinnuleysisskrá þegar líður á sumarið þó það ráðist að einhverju marki af því hvort erlendir ferðamenn muni koma til landsins í einhverjum mæli þegar líður á sumarið.“