Leit að flugi til Færeyja á vefnum Dohop hefur rokið upp um 420 prósent milli vikna. Skýringin er sú að Færeyingum tókst snemma að ná góðum tökum á faraldrinum og útrýma kórónuveirunni í samfélaginu og nú hefur verið ákveðið að opna landamærin fyrir ferðalög til og frá Íslandi um miðjan mánuðinn.
„Kæru frændur, nú er rétti tíminn til að heimsækja Færeyjar,“ stendur í skilaboðum frá færeyska flugfélaginu Atlantic Airways til íslensku þjóðarinnar. „Við höfum opnað landamæri okkar sérstaklega fyrir Íslendinga.“ Í skilaboðunum er bent á að félagið muni frá og með 15. júní fljúga milli Keflavíkurflugvallar og Færeyja þrisvar í viku; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.
Íslendingar eru einnig að leita að flugi til annarra landa en leit þeirra að flugi innanlands hefur einnig aukist um 76 prósent á einni viku.
Í greinargerð sem efnahags- og fjármálaráðuneytið vann að beiðni forsætisráðherra um hagræn áhrif þess að aflétta ferðatakmörkunum til Íslands kemur m.a. fram að þrátt fyrir að hluti þeirra 200 milljarða króna sem Íslendingar hefðu hugsanlega varið erlendis á þessu ári fari í neyslu innanlands er ólíklegt að aukin neysla Íslendinga hafi grundvallaráhrif á þróun ferðaþjónustunnar þótt hún geti haft áhrif á einstaka rekstraraðila. Neysla Íslendinga standi aðeins undir broti af tekjum flestra ferðaþjónustufyrirtækja, ekki síst hótela, bílaleigubíla og þeirra sem veita ýmsa sérhæfða afþreyingu. Þá kemur einnig fram að ekki séu heldur vísbendingar um að ferðalög Íslendinga innanlands muni aukast mikið á næstunni, enda dragi atvinnuleysi og óvissa úr einkaneyslu.
Kæru frændur, nú er rétti tíminn til að heimsækja Færeyjar 😍🇫🇴 Við höfum opnað landamæri okkar sérstaklega fyrir...
Posted by Atlantic Airways on Friday, May 29, 2020
Í maí var ákveðið að ferðamenn frá Færeyjum og Grænlandi þurfi ekki að sæta sóttkví við komuna til landsins. Áhrif þess eru að mati fjármálaráðuneytisins hverfandi en hlutfall Færeyinga og Grænlendinga í heildar gistinóttum árið 2019 var 0,1 prósent fyrir hvora þjóð.
En þegar takmarkanir eru á ferðalögum víða annars staðar í heiminum gæti fjöldi ferðamanna frá þessum löndum hingað auðvitað breyst.