Gerð var tilraun til innbrots í tölvukerfi Reiknistofu bankanna (RB) og var brugðist við í samræmi við viðbragðsáætlun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RB.
Þar segir að brotist hafi verið inn í ysta netlag og séu engar vísbendingar um að komist hafi verið inn í kerfi RB og viðskiptavina.
„RB vinnur að úrlausn málsins með helstu sérfræðingum í netöryggismálum og samstarfsaðilum fyrirtækisins. Við úrlausn varð þjónusturof kl. 13:07 sem hafði þær afleiðingar að truflanir eru í starfsemi netbanka og debetkorta. Áfram er unnið að úrlausn málsins og er gert ráð fyrir að kerfin verði orðin virk innan skamms,“ segir í tilkynningunni.
Uppfærsla frá RB klukkan 14:02: Það þjónusturof sem var í gangi hjá RB hefur verið leyst og kerfi eru aftur orðin virk.