Einstaklingur sem taldi tölvupósta frá starfsmanni fjármála- og efnahagsráðuneytisins til starfsmanna fjármálaráðuneyta á hinum Norðurlöndunum og annarra hafa komið í veg fyrir ráðningu sína í ritstjórastarf fræðitímarits, hefur fengið aðgang að umræddum tölvupóstum.
Þetta segir fjármála- og efnahagsráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans, en ráðuneytinu var gert að afhenda tölvupóstana á grundvelli upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að niðurstöðu í málinu 20. maí og var úrskurðurinn birtur fyrr í vikunni.
Tölvupóstsamskiptin áttu sér stað 4.-11. nóvember í fyrra og samkvæmt yfirferð nefndarinnar á efni þeirra er ljóst að sá sem fjallað var um í póstunum frá starfsmanni fjármála- og efnahagsráðuneytisins var á meðal þeirra sem komu til greina í starf sem ritstjóri fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review. Tímaritið er samstarfsverkefni norrænu fjármálaráðuneytanna og norrænu rannsóknastofnunarinnar Nordregio.
Tölvupóstarnir voru sendir frá starfsmanni ráðuneytisins á starfsmenn finnska, norska og danska fjármálaráðuneytisins, auk starfsmanna Nordregio.
Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sagði að kærandinn teldi ráðuneytið hafa átt í samskiptum um persónu sína með ótilhlýðilegum hætti og sett fram rangfærslur, sem hafi orðið til þess að ráðning hans í ritstjórastarf var dregin til baka.
Ráðuneytið segir ekki rétt að búið hafi verið að ráða einstaklinginn
Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að það sé búið að leiðrétta upplýsingar sem settar hafi verið fram um kæranda, sem í ljós hefði komið að væru úreltar.
Ráðuneytið neitaði þó að afhenda kæranda afrit tölvupóstana sem hann óskaði eftir að fá að sjá og vísaði til þess að traust og trúnaður þyrfti að gilda um samskipti við Norrænu ráðherranefndina um málefni af þessum toga, rétt eins og um samskipti við aðrar fjölþjóðastofnanir.
Sagði ráðuneytið að þeir mikilvægu almannahagsmunir sem fælust í að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi stæðu í vegi fyrir að kæranda yrði veittur aðgangur að póstunum.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sagðist einnig hafa leiðrétt þann skilning kæranda að hann hefði verið ráðinn í starfið. Ráðuneytið segir að kærandi hafi bara verið einn af mörgum sem komið hafi til greina í stöðuna og að starfstilboð eða ráðning í stöðu ritstjóra Nordic Economic Policy Review þurfi samhljóða samþykkt aðildarríkjanna.
Ríkur réttur til að sjá hvernig stjórnvöld miðla upplýsingum til erlendra aðila í tengslum við atvinnutækifæri
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál segir í niðurstöðu sinni um málið að ekki verði annað séð, af þeim reglum sem Norðurlöndin hafa komið sér saman um að eigi að gilda um aðgengi að gögnum Norrænu ráðherranefndarinnar, en að umsækjendur um störf hjá nefndinni og öðrum sambærilegum stofnunum eigi almennt rétt til aðgangs að gögnum sem varða þá sjálfa.
Þá er enn fremur ekkert í umbeðnum gögnum sem gefur tilefni til að ætla að raunverulegt tjón muni hljótast af því að umbeðin gögn verði afhent kæranda, að mati úrskurðarnefndarinnar, sem segir hann eiga ríkan rétt til aðgangs að gögnum um það hvernig íslensk stjórnvöld miðla upplýsingum um hann til erlendra aðila í tengslum við hugsanleg atvinnutækifæri á grundvelli meginreglu 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.