Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur að nýsköpunaraðgerðir stjórnvalda nái ekki yfir þann gríðarlega fjölda fólks sem hefur orðið atvinnulaust og leitar nú að vinnu. „Þess vegna þarf nú enn aukið átak í nýsköpun, til þess að nýta tækifærið sem þetta svigrúm gefur. Á undanförnum árum höfum við verið að hjakka í sama farinu. Við höfum verið að nýta okkur þennan enn eina hvalreka sem ferðaþjónustan hefur verið – eins og til að mynda síldarævintýrið, álið og .com-bólan var fyrir okkur. Alltaf grípum við þessi tækifæri sem gefast, við rennum út þá öldu einhvern veginn en spyrjum ekki hvað gerist þegar sú alda klárast. Við lendum alltaf í dýfu eftir það, í staðinn fyrir að aldan fjari út á föstu landi þar sem við getum gengið án þess að falla í öldudalinn.“
Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við Björn Leví í vikunni en Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Fyrstur í röðinni var þingmaður Pírata.
Björn Leví segir að vissulega séu óhefðbundnar ástæður fyrir því að ástandið sé erfitt núna en hann telur að það hafi þó þrátt fyrir það verið fyrirsjáanlegt. „Það var í fyrra endurskoðuð fjármálastefna og allir umsagnaraðilar sögðu: Það er að koma dýfa. Þá var alltaf sagt að við værum að fara í mjúka lendingu en það var ekkert sem sýndi fram á það. Það var einungis ágiskun.“
Hann segir þess vegna að ástandið væri erfitt efnahagslega á Íslandi núna hvort sem COVID-19 sjúkdómurinn hefði riðið yfir heiminn eður ei. „En að sjálfsögðu ekki af sömu stærðargráðu – alls ekki – en skorturinn á framtíðarsýn stjórnvalda er algjörlega sá sami. Það hefði komið lægð, eins og allir voru að benda á og búist var við og fjármálastefnan endurspeglaði þá lægð, en það var enginn sýn um það hvernig við ætluðum annað hvort að koma í veg fyrir lægðina eða hvernig við ætluðum að stíga upp úr henni. Öll spámódel gerðu ráð fyrir því að við yrðum komin í eðlilegan hagvöxt eftir tvö ár. En það segja öll spámódel alltaf og þá erum við bara að vonast til þess að allt gerist sjálfkrafa.“
Þannig búist stjórnvöld við því að lægðin klárist eftir eitt til tvö ár. Hann segir þó að þetta sé rétt ályktun að vissu leyti vegna þess að Ísland sé ríkt land – og telur hann að í raun sé einkennilegt að allir Íslendingar séu ekki ríkir vegna þessa ríkidæmis. „Við erum nú að taka lán frá framtíðarkynslóðum og við munum hafa efni á því láni. Það er enginn efi um það en þegar við tökum lán frá framtíðinni þá eigum við að nota það til þess að byggja upp arðsemi til að greiða það lán til baka þannig að næstu kynslóðir þurfi ekki að greiða okkar skuldir. Við þurfum að gefa þeim tækifæri til þess að fá arð af þeirri fjárfestingu sem við fengum að láni frá þeim til þess að endurgreiða lánið. Þannig er hægt að halda sömu réttindum og þjónustu þrátt fyrir að borga lánið sem við þurftum að nota til þess að brúa þetta bil.“
Það sem vantar í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að mati Björns Levís, er þessi arðsemisfjárfesting.