Einstakri náttúru við Hagavatn verði ekki fórnað fyrir „hagnaðarvon einkaaðila“

Hagavatnsvirkjun myndi auka uppfok en ekki minnka, að mati Sveins Runólfssonar fyrrverandi landgræðslustjóra. Hann leggst alfarið gegn því að náttúru verði fórnað fyrir „hagnaðarvon einkaðila sem mun hafa bein, áhrif á stóran hluta almennings í landinu“.

Foss í Farinu, útrennsli Hagavatns.
Foss í Farinu, útrennsli Hagavatns.
Auglýsing

Hagavatnsvirkjun gæti haft í för með sér alvarlega svifryksmengun á stórum byggðasvæðum. Kæmi til stækkunar hinnar fyrirhuguðu virkjunar síðar meir yrði uppfokið enn meira.

Þetta segir Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, í athugasemd sinni við tillögu að matsáætlun 9,9 MW Hagavatnsvirkjunar sem Íslensk vatnsorka ehf. áformar sunnan Langjökuls. Við miðlun í Hagavatni, eins og hún er kynnt í tillögunni, myndi um 600 hektarar af jökulleirbornum vatnsbotni verða þurr langt fram á sumar, „væntanlega fram í ágúst og mun það að fenginni reynslu frá Hálslóni og Blöndulóni leiða til mikils uppfoks og einhvers áfoks úr lónsstæðinu,“ skrifar Sveinn. Komi til virkjunar muni sá gróður sem náð hefur að festa rætur á um 1.800 hektara svæði eyðast með öllu.

Hugmyndir að virkjun Hagavatns hafa verið uppi í nokkra áratugi. Fyrst var talað um 35 MW virkjun en í nýjustu tillögu er hún orðin 9,9 MW, rétt undir þeim mörkum sem krefjast meðferðar í rammaáætlun en þar er tillaga um 20 MW virkjun í Hagavatni í biðflokki.

Auglýsing

Þó að megawöttin séu færri er umfang framkvæmdarinnar sjálfrar hins vegar nokkuð sambærilegt á milli tillagna. Stíflur eru jafn margar, jafn háar og svipað langar og miðlunarlónið sem yrði til með stíflun Hagavatns yrði jafn stórt.


Árni Bragason landgræðslustjóri sagði í viðtali við Kjarnann í vetur að allar hugmyndir um fyrirhugaða Hagavatnsvirkjun sem Íslensk vatnsorka ehf. hefði kynnt undanfarin ár myndu, ef þær yrðu að veruleika, auka uppblástur á svæðinu en ekki draga úr honum. Öflug landmótunaröfl, skrið og hop jökla, eru að verki sunnan Langjökuls. Sagði Árni að Landgræðslan hefði engin áform um að grípa inn í náttúrulega ferla.


Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri. Mynd: Af vef Háskólafélags Suðurlands.Sveinn, forveri Árna hjá Landgræðslunni, gerir að eigin sögn „meiriháttar athugasemdir“ við ýmsar fullyrðingar sem settar eru fram í tillögum að matsáætlun Hagavatnsvirkjunar. Hafa verði í huga að landið sunnan Hagafellsjöklanna og Hagafells sé óheppilegt fyrir miðlunarlón vegna þess hversu flatt það er og að lónið yrði því á stórum svæðum mjög grunnt. Það er ástæða þess að gert er ráð fyrir að með virkjun myndi vatnsborðið sveiflast um fimm metra eftir árstíma.


Ennfremur segir Sveinn að í tillögunni sé því ranglega haldið fram að gerð miðlunarlóns í Hagavatni yrði sambærileg þeirri framkvæmd er Landgræðsla ríkisins stóð fyrir árið 1986 þegar vatnsborð Sandvatns á Haukadalsheiði var hækkað með stíflum. „Það yrði grundvallarmunur á þessum tveimur aðgerðum, því eins og segir í innganginum í tillögu að matsáætlun er leitast við að halda vatnsborði Sandsvatns stöðugu, einmitt til þess að koma í veg fyrir að stór flæmi botns jökullóns verði þurr á vorin og fram á sumarið.“

Skerðir sérkenni og náttúrugæði

Hann telur að yrði virkjunin leyfð myndi það ganga þvert gegn markmiðum landsskipulagsstefnu. „Það hlýtur að vera alveg ljóst að umrædd fyrirhuguð virkjun, ekki síst miðlunarlónið með breytilegri vatnsyfirborðsstöðu og tilheyrandi upp- og áfoki, skerðir sérkenni og náttúrugæði miðhálendisins og skerðir víðerni þess með óafturkræfum hætti. Uppfok frá þurrum lónsbotni á vorin og langt fram á sumar verður miklu meira en nú er á fyrirhuguð lónsstæði með tilheyrandi skertum loftgæðum og getur leitt til svifryksmengunar í aðliggjandi byggðum langt yfir heilsufarsmörkum.“

Æskilegt er að mati Sveins að hækka vatnsyfirborð Hagavatns með varanlegum hætti „þó að það geti alls ekki talist brýn þörf við núverandi aðstæður.“

Hann bætir svo við: „Það er hins vegar fullkomlega ósamrýmanlegt að nýta stækkað Hagavatn sem miðlunarlón til raforkuframleiðslu.“

Í athugasemdum sínum rifjar Sveinn upp að Landgræðslan hafði á tíunda áratug síðustu aldar hug á því að stækka Hagavatn með stíflu. Mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar var ekki samþykkt af umhverfisráðuneytinu og í kjölfarið mættu hugmyndirnar mikilli andstöðu meðal fjölda umhverfisverndar- og ferðaþjónustuaðila. Þau fyrirtæki sem ætluðu að styrkja og kosta framkvæmdina hættu við stuðning sinn og Landgræðslan taldi sér ekki fært „að fara gegn slíkri andstöðu“.

Tilhögun fyrirhugaðrar Hagavatnsvirkjunar eins og hún er kynnt í tillögu að matsskýrslu.


Í greinargerð með nýlegu aðalskipulagi Bláskógabyggðar er talað um „endurheimt Hagavatns“ og vísað til þess að þó að stækkun vatnsins myndi vissulega breyta ásýnd landsins á þessu svæði „þá ber að líta á það að Hagavatn náði yfir umrætt svæði allt þar til hjóp úr því árið 1939“.


Þessi fullyrðing um stærð Hagavatns stenst ekki að sögn Sveins. „Það kann að vera að syðri strandlína vatnsins hafi verið nær því sem fyrirhugað lón verði. En þá náðu Hagafellsjöklarnir miklu lengra til suðurs en nú er. Miðlunarlón yrði því miklu stærra að flatarmáli en Hagavatn um 1900.“

Aukin þekking og reynsla af uppgræðslu


Í sömu greinargerð, sem ítrekað er vitnað til í tillögu að matsáætlun Hagavatnsvirkjunar, stendur einnig að „endurheimt Hagavatns“ sé forsenda þess að hægt sé að ráðast í frekari landgræðsluaðgerðir sunnan vatnsins. Sveinn segir þessa fullyrðingu ekki heldur standast með tilliti til aukinnar þekkingar og reynslu í uppgræðslu, „enda hefur all nokkuð verið unnið að landgræðslu sunnan og suðvestan við vatnið á síðastliðnum árum með ágætum árangri“.


Sveinn minnir á að þegar Landgræðslan áformaði að stækka Hagavatn í lok síðustu aldar hafi aðilar í ferðaþjónustu mótmælt því harkalega. „Það að spilla þessari stórkostlegu náttúru við Hagavatn með virkjunarframkvæmdum, mannvirkjum og stóru manngerðu jökullóni með tilheyrandi uppfoki frá ströndum er ekki til þess fallið að gleðja augu ferðamanna.“


Í athugasemdum sínum leggur Sveinn ríka áherslu á að hann búi á áhrifasvæði „óhjákvæmilegs uppfoks“ frá fyrirhuguðu miðlunarlóni og sem borgari þessa lands þá leggist hann „alfarið gegn því að þessari einstöku og fágætu náttúru við Hagavatn verði fórnað fyrir hagnaðarvon einkaaðila sem mun hafa bein, neikvæð áhrif á stóran hluta almennings í landinu.“Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent