Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að verið væri að vinna að svörum við ýmiss konar spurningum sem vaknað hefðu vegna skimunar ferðamanna og Íslendinga sem koma til landsins eftir 15. júní. „Það er þannig að hver einasti dagur er þrunginn spurningum og svörum sem í raun og veru eru umhverfi þessa verkefnis,“ sagði ráðherrann.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann meðal annars hvort það verkefni að skima fyrir veirunni stæði og félli með því að hingað kæmu fáir ferðamenn. Hún benti á að afkastagetan væri sögð vera 2.000 sýni á sólarhring, samtals hjá Landspítala og Íslenskri erfðagreiningu og spurði hún því ráðherra: „Eru meðtalin þau sýni sem koma með Norrænu, en það ágæta skip tekur 1.400 farþega? Hvað með þá sem koma með flugi á Akureyri? Hvað með íslenska ferðalanga, geta þeir valið að fara frekar í ókeypis sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu heldur en að borga 15.000 krónur við landamærin? Geta ferðamenn jafnvel líka gert það, að panta sér ókeypis sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu?
Nú, landlæknir benti réttilega á það á fundinum fyrr í dag að við værum með veikleika þegar kemur að ófullnægjandi húsnæði og ónógum fjölda heilbrigðisstarfsfólks. Telur ráðherra það líka vera áhyggjuefni? Hvað með þær valkvæðu aðgerðir sem hefur nú verið frestað mánuðum saman? Verður þeim áfram slegið á frest vegna þessa verkefnis?“ spyrði hún.
Að lokum spurði Helga Vala hvernig Svandís sæi fyrir sér að tekið yrði á áhöfnum flugvéla og farþegaskipa, sem og ferðafélögum í umræddum farartækjum ef ferðamaður greindist sýktur af COVID-19 sjúkdómnum. „Fá allir þeir inn í sóttvarnarhúsi, sér að kostnaðarlausu? Hver greiðir laun áhafnarmeðlima sem þurfa að fara í sóttkví og annarra sem þurfa að fara í sóttkví vegna þessa ferðalags?“
Til skoðunar að Sjúkrahúsið á Akureyri komi að greiningu
Svandís svaraði og sagði að verkefnið miðaði við það að greiningargetan væri 2.000 sýni á sólarhring. „Það þýðir heildarumfang sýna sem verði tekin og greind – þar með talin þau sýni sem koma í gegnum Norrænu eða önnur hlið inn í landið. Við hins vegar höfum verið með til skoðunar að Sjúkrahúsið á Akureyri komi að greiningu að einhverju leyti. En það er algjörlega ljóst að á meðan við erum að stíga fyrstu skrefin í þessu mjög svo flókna verkefni að þar verðum við að svara þessum spurningum jafnóðum og verkefninu vindur fram. Ekki síst er varðar utanumhaldið í stóru myndinni.
Það verður líka að vera þannig áfram vegna þess að háttvirtur þingmaður spyr sérstaklega um heilbrigðiskerfið að öðru leyti, og þá erum við að tala um mönnun og aðstöðu og slíkt, að við þurfum áfram að hafa burði til þess að taka sýni úr fólki með einkenni, ef það kemur til þess að fólk fái COVID-einkenni, að við séum með burði til þess að greina það fólks.
Ég vil líka greina frá því hér að við gerum ráð fyrir því að fjármagna uppbyggingu og tækjavæðingu veirufræðideildar svo hún standi undir aukinni greiningargetu, en það hefur komið fram hjá úttekt almannavarna að það sé sérstakt áhyggjuefni að skortur á greiningargetu veirufræðideildar sé flöskuháls í sjálfu sér í almannavarnaástandi þegar um er að ræða faraldur. Og við það verður náttúrulega ekki unað og þetta snýst ekki bara um glímuna við COVID-19 heldur mögulega aðrar bylgjur í framtíðinni þar sem við erum mögulega að glíma við aðra sjúkdóma,“ sagði Svandís.
Má fólk fara upp í rútu sem bíður niðurstöðu?
Helga Vala kom aftur í pontu og ítrekaði spurninguna varðandi sýnatökuna, hvort ferðamenn og Íslendingar gætu pantað sér tíma hjá Íslenskri erfðagreiningu og fengið þar ókeypis skimun í stað þess að borga þetta 15.000 króna gjald við landamærin. „Mig langar að spyrja út í ferðatakmarkanir á því fólki sem bíður niðurstöðu, verða einhverjar ferðatakmarkanir í almenningssamgöngum eins og þekkist víða um Evrópu? Má fólk fara upp í rútu sem bíður niðurstöðu? Hvernig sér hæstvirtur ráðherra fyrir sér að rekja ferðir þeirra sem bíða niðurstöðu eða annarra?“
Svandís svaraði og sagði að meiningin væri sú að á meðan fólk biði eftir niðurstöðu vegna sýnatöku þá væri gert ráð fyrir því að það hefði hægt um sig. „Það skrái sig inn á hótelherbergi og bíði eftir því að niðurstaða úr sýnatöku berist.“