Vaxtamunur á húsnæðislánum og stýrivöxtum hefur aukist um eitt til 1,5 prósentustig. Þetta er niðurstaða úttektar ASÍ um þróun á húsnæðisvöxtum sem tekur fyrir tímabilið frá 1. janúar 2019 til 7. júní 2020. Lántakendur hafa því ekki notið góðs af lækkun stýrivaxta að fullu.
„Sem dæmi um aukinn vaxtamun má nefna að í byrjun tímabils var 1,5 prósentustiga munur ástýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum Landsbankans og Íslandsbanka en í dag er munurinn kominn upp í 2,5 prósentustig hjá Landsbankanum og 2,7% hjá Íslandsbanka. Í byrjun tímabils var 2,1 prósentustiga munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum hjá Arion banka en er í dag 2,54 prósentustig,“ segir í tilkynningunni.
Það sama er uppi á teningnum hjá lífeyrissjóðum en samkvæmt úttektinni hefur munur á breytilegum vöxtum Brúar farið úr tveimur prósentustigum í 3,2 prósentustig og hjá Lífsverki hefur munurinn farið úr 1,8 prósentustigum upp í 3,25 prósentustig.
Um breytingu á verðtryggðum vöxtum lánastofnana segir í tilkynningunni: „Í samanburði hafa verðtryggðir breytilegir húsnæðisvextir af grunnlánum lækkað um 0,4-1,55 prósentustig og óverðtryggðir breytilegir vextir af grunnlánum um 0,95-3,5 prósentustig. Óverðtryggðir fastir vextir til 3-5 ára hafa í mörgum tilfellum lækkað mikið eða á bilinu 1,55-3,35 prósentustig en verðtryggðir fastir vextir út lánstímann minna, um 0,05-0,4 prósentustig og verðtryggðir fastir vextir til 3-5 ára um 1,25-1,45 prósentustig,“
Í tilkynningu segir: „Þrátt fyrir miklar vaxtalækkanir hefur munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum vöxtum af húsnæðislánum í mörgum tilfellum aukist á tímabilinu og því hafa lántakendur húsnæðislána að jafnaði ekki notið góðs af lækkun stýrivaxta að fullu.“
Í tilkynningunni eru tekin dæmi um hvaða þýðingu lægri vextir geta haft fyrir lántakendur. Þar kemur fram að 0,5 prósentustiga munur á 30 milljóna króna láni hafi í för með sér auka kostnað sem nemur 150 þúsund krónum fyrir lántakanda á ári. „Ef munurinn á vöxtum er enn meiri, t.d. 1,5 eða 2 prósentustig er það auka kostnaður upp á 450.000-600.000 krónur á ári,“ segir þar enn fremur.
Úttektin sýnir þróun á húsnæðisvöxtum á grunnlánum frá 1. Janúar 2019 til 7. júní 2020. Hún nær til 15 lánastofnana. Þær eru Landsbankinn, Íslandsbankinn og Arion banki og Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta, Brú, Festa, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi, Lífsverk, LSR, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Stapi, Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.