Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir að áhugaverð tækifæri hafi skapast fyrir Íslands veg COVID-19 faraldursins og allrar fjarvinnunnar sem faraldrinum fylgir. Nú er unnið að því að gera erlendum ríkisborgurum sem starfa fyrir fyrirtæki erlendis auðveldara að setjast hér að og vinna fjarvinnu, en að ýmsu er að huga við það verkefni.
Þórdís Kolbrún segir vel koma til greina af hennar hálfu að verja fé til þess að kynna Ísland sérstaklega sem fjarvinnuland á erlendum vettvangi.
Kjarninn fjallaði um þetta í maímánuði og ræddi þá við Kristinn Árna L. Hróbjartsson, ritstjóra nýsköpunarvefsins Northstack, sem hvatti íslensk stjórnvöld til þess að leggja áherslu á að reyna að lokka hingað starfsfólk hátæknifyrirtækja, sem gæti unnið vinnu sína við skrifborð hvar sem er í heiminum.
Tæknifyrirtæki á borð við Twitter, Facebook og fleiri hafa gefið það út að fjarvinnan hafi gefið svo góða raun í faraldrinum að héðan í frá verði starfsmönnum algjörlega frjálst að vinna að heiman. Sem opnar nýja möguleika.
Þórdís Kolbrún hefur lýst því yfir að vinna sé komin af stað hjá stjórnvöldum, en blaðamanni lék forvitni á að vita hversu langt sú vinna væri komin, í hverju hún fælist og hversu langan tíma áætlað væri að hún myndi taka.
Ráðherra segir í skriflegu svari sínu að að kerfið eins og það er í dag geri „ekki nægilega mikið ráð fyrir því að einhver vilji vinna hér eingöngu í fjarvinnu erlendis“ og nú sé unnið að því að greina þarfir markaðarins annars vegar og hins vegar stöðuna á regluverkinu.
„Til að greina þarfir markaðarins skiptir miklu að við fáum að heyra frá fólki og fyrirtækjum hvernig þetta yrði sem einfaldast og skilvirkast. Það er svo okkar í ráðuneytinu og innan kerfisins að greina hvað við þurfum að laga til að geta mætt þeim kröfum. Til þess þarf að yfirfara þá lagalegu hluti sem þarf að breyta til að auðvelt verði fyrir erlenda sérfræðinga að vinna frá Íslandi, t.d. tengt landvistarleyfum, skattlagningu, o.fl. og leggja svo til þær reglubreytingar sem þarf. Þá þarf að kortleggja alla ferla og þá hluti sem einstaklingar þurfa að fara í gegnum til að geta starfað frá Íslandi,“ segir Þórdís Kolbrún.
Víða ljón í veginum
Blaðamaður spurði hvaða ljón væru fyrirsjáanlega í veginum, svo þessar áætlanir gætu orðið að veruleika. Þórdís svarar því til að ljónin séu „auðvitað víða þegar um er að ræða þungt, flókið og um margt einstrengingslegt kerfi.“
„Við erum að glíma við allt frá löngum afgreiðslutíma dvalar- og atvinnuleyfa til flókins samspils skattsins og pappírsvinnu vegna stofnunar fyrirtækja fyrir aðila utan EES. Svo eru þarna praktísk atriði eins og það að hafa gögnin aðgengileg og á ensku svo dæmi sé tekið,“ segir Þórdís Kolbrún.
Kemur til greina að verja fé í að kynna Ísland með þessum hætti erlendis?
„Mér finnst það koma vel til greina. Eftir að búið er að kortleggja ferlið og sjá hvaða breytingar þarf að gera til að hafa það sem einfaldast og skilvirkast þurfum við að koma því til skila og búa til einhvers konar leiðarvísi þar sem viðkomandi er leiddur í gegnum ferlið. Ekki síst að huga að markaðssetningu á Íslandi sem fjarvinnulandi. Þar þyrfti að einblína á hvað er einstakt og spennandi við að koma hingað og hvað við höfum fram að færa. Að búa á Íslandi er lottóvinningur og fyrir sérfræðinga í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum getum við boðið upp á mikil lífsgæði. Þar mætti auðvitað nefna náttúruna en einnig líka til dæmis gott aðgengi að leik- og grunnskólum sem er oft meiri risa bónus fyrir barnafólk en við kannski áttum okkur á fyrir utan frábært heilbrigðiskerfi, virkt menningarlíf, frið og ró,“ segir Þórdís Kolbrún.
Blaðamaður spurði einnig hversu fljótt Þórdís Kolbrún teldi að þetta gæti orðið að veruleika, nú þegar vinnan væri hafin.
„Við vinnum þetta hratt en þessi atriði eru víða í kerfinu og óljóst hvað einstaka þættir kalla á mikla vinnu eða samtal. Það er mikilvægt að vera fljót til þegar svona tækifæri gera vart við sig eins og við erum að sjá núna. Ég er meðvituð um að við erum ekki eina ríkið sem er að hugsa á þessum nótum. Þetta er vinsælt starfsafl og við þurfum bæði að hreyfa okkur hratt og passa að við séum aðgengileg til að vera samkeppnishæf um þetta fólk sem getur svo vel auðgað bæði byggðir landsins og þekkingargreinarnar okkar,“ segir Þórdís Kolbrún í svari sínu.
Hún bætir við að íslenskt samfélag og þá nýsköpunarumhverfið sérstaklega hefði mjög gott af því að fleiri erlendir sérfræðingar með sína reynslu, tengingar og þekkingu, komi og starfi héðan.
„Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll,“ segir Þórdís Kolbrún.