Ekki hefur enn verið útfært endanlega hvernig hagkvæmar íbúðir verða skilgreindar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en eitt af skilyrðum fyrir hlutdeildarláni er að keypt sé ný íbúð sem samþykkt hafi verið sem hagkvæm íbúð. Þetta kemur fram í svari Rúnar Knútsdóttur, lögfræðings hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, við fyrirspurn Kjarnans.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um húsnæðismál. Í frumvarpinu eru svokölluð hlutdeildarlán kynnt til sögunnar. Hlutdeildarlánin voru kynnt í gær í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Frumvarpið veitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimild til að veita fyrstu kaupendum sem hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum hlutdeildarlán. Lánin geta numið allt að 20 prósentum af kaupverði húsnæðis. Þau bera enga vexti og ekki er borgað af láninu fyrr en íbúð er seld. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár og að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki verið seld.
Einungis lánað fyrir kaupum á nýjum hagkvæmum íbúðum
Hlutdeildarlánin eru einungis veitt fyrir kaupum á ákveðinni tegund íbúða eins og fram kemur í lagafrumvarpinu: „Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings byggingaraðilans við stofnunina. Með hagkvæmum íbúðum samkvæmt ákvæði þessu er meðal annars átt við íbúðir sem uppfylla stærðar- og verðmörk samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur og íbúðir sem taka mið af herbergjafjölda miðað við fjölskyldustærð.“
Líkt og áður segir á enn eftir að útfæra hvernig hagkvæmar íbúðir verða skilgreindar nákvæmlega. Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Rún það verða gert að höfðu samráði við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins og byggingaraðila.
„Stefnt er að því að horfa frekar á fjölskyldustærðir og hagkvæmni því fremur skilgreind út frá hámarksverði m.v. herbergjafjölda heldur en fermetrastærð,“ segir í svari Rúnar. Þannig gefist hönnuðum og byggingaraðilum aukið svigrúm til nýsköpunar.
Gert er ráð fyrir að hagkvæmar íbúðir verði 340 til 710 á ári
Spurð um hver fjöldi og hlutdeild hagkvæmra íbúða á markaðnum gæti orðið segir Rún það ráðast af því hvaða viðmið séu notuð. Hún bendir á greinargerð frumvarpsins í því samhengi. Í greinargerðinni kemur fram að áætlaður fjöldi hagkvæmra íbúða á næstu árum liggi á bilinu 340 til 710 íbúðir á ári. Í þeim tölum er gert ráð fyrir að hlutfall hagkvæmra nýrra íbúða af heildarframboði sé á bilinu 18 til 26 prósent.
Í greinargerð frumvarpsins kemur einnig fram að heildarframboð nýrra íbúða árið 2018 hafi verið 1.520 íbúðir og af þeim megi flokka 18 prósent, alls 280 íbúðir, sem hagkvæmar. Í þessum tölum eru nýjar íbúðir í póstnúmerinu 101 undanskildar því þær eru of dýrar til að flokkast sem hagkvæmar íbúðir. Í áætluninni er gert ráð fyrir að árlegt framboð nýrra íbúða muni aukast um 20 til 80 prósent miðað við árið 2018.
„Líklegast er þó að umfangið verði um það bil 3,7 milljarðar kr. á ári, eða rétt rúmar 400 lán,“ segir enn fremur í greinargerð frumvarpsins.