Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Tómas Brynjólfsson skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála fjármála- og efnahagsráðuneytisins munu mæta á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á mánudag, 15. júní. Á dagskrá fundarins er að ræða verklag ráðherrans við tilnefningar í stöður.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafði farið fram á að Bjarni mæti fyrir nefndina og rökstyddi þar af hverju Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, hefði ekki fengið starf ritstjóra ritsins Nordic Economic Policy Review.
Bjarni sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að það væri meira en sjálfsagt að mæta og rekja sín sjónarmið nánar. „Þá gefst mögulega tækifæri til að fara nánar ofan í saumana á því hvers vegna ég tel Þorvald Gylfason tæplega eiga samleið með mínu ráðuneyti í þessu verkefni eða yfirhöfuð um önnur stefnumarkandi mál. Það verður þá í fyrsta sinn sem ég ræði um mögulegt samstarf við Þorvald Gylfason en ekki þarf að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hvaða hug Þorvaldur hefur borið til þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í undanfarin ár. Ef þörf krefur skal farið betur yfir það fyrir þingnefnd.“
Ástæðan sem ráðuneytið gaf upp var sú að Þorvaldur hefði verið og væri enn, samkvæmt bestu vitneskju ráðuneytisins, formaður stjórnmálaafls. Hann væri því of pólitískt virkur til þess að ráðuneytið gæti stutt að hann yrði ritstjóri fræðatímaritsins.
Í því svari studdist ráðuneytið við rangar upplýsingar, sem það segir að hafi verið að finna á Wikipedia-síðu um Þorvald. Ráðuneytið hefur beðist velvirðingar á því og leiðrétti rangfærslurnar um prófessorinn í tölvupósti, sem sendur var á þá sem fengu upprunalega póstinn, 29. nóvember.
Í stöðuuppfærslunni í gær lagði Bjarni áherslu á að ákvörðun um ráðningu sé tekin samhljóða og að krafist sé samsinnis allra fyrir ráðningu. „Ekkert slíkt samþykki lá fyrir þann 1. nóvember sl., þegar Þorvaldi á að hafa verið boðin vinnan, sem var áður en nafn hans hafði nokkurn tímann verið nefnt við fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri.“