Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið í lok maí síðastliðins til að greiða Tyrkja af kúrdískum uppruna 500.000 krónur í miskabætur vegna þvingunarráðstafana lögreglu og athafna lögreglu í tengslum við sakamál á árinu 2018 þar sem stefnandi hafði stöðu sakbornings. Málin voru síðar öll felld niður á rannsóknarstigi. Gjafsóknarkostnaður mannsins greiðist enn fremur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans að fjárhæð 2.157.600 krónur.
Maðurinn, sem er tyrkneskur ríkisborgari en af kúrdískum uppruna, taldi afskipti lögreglu af sér almennt hafa einkennst af tungumálaörðugleikum og fordómum gagnvart múslímum. Hann krafðist þess að ríkið myndi greiða honum bætur að fjárhæð 3.252.250 krónur með vöxtum, sem og málskostnað.
Íslenska ríkið hafnaði frá upphafi bótaskyldu og vísaði til þess að maðurinn hefði sjálfur stuðlað að eða valdið aðgerðum lögreglu sem hefði að öllu öðru leyti verið réttlætanlegar.
Þá taldi maðurinn að þvingunarráðstafanir í máli hans hefðu ekki verið í nægilegu samhengi við hegðun hans og þá háttsemi sem honum var gefin að sök.
Maðurinn taldi að ljóst væri að lögregla og önnur stjórnvöld hefðu í máli hans brotið gegn meðalhófi við val á þvingunarráðstöfunum og þannig sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hefði valdið honum tjóni, sem íslenska ríkið bæri ábyrgð á með vísan til almennu sakarreglunnar.
Þá taldi hann að bein orsakatengsl væru á milli andlegs tjóns sem hann hefði orðið fyrir og hinnar bótaskyldu háttsemi sem lýst er hér að framan. Hann kvað málin hafa valdið sér verulegu hugarangri, kvíða og hræðslu undanfarið ár og haft áhrif á daglega líðan hans og fjölskyldulíf.
Líta bæri til þess að um umfangsmiklar aðgerðir hefði verið að ræða sem fólu í sér víðtæk inngrip í friðhelgi einkalífs hans. Að síðustu taldi maðurinn einnig að rétt væri að líta til þess að margþættar rannsóknaraðgerðir lögreglu hefðu engan árangur borið en öll málin voru felld niður gagnvart honum.
Heimilt að beita manninn valdi til þess að tryggja öryggi hans og annarra
Í niðurstöðu dómsins segir að þann 13. maí árið 2018 hafi lögregla verið kölluð að heimili fyrrverandi sambýliskonu mannsins eftir tilkynningu frá henni. Segir í stefnu að maðurinn hafi verið búinn að skera sig á kvið og læsa sig inni á baðherbergi þegar lögreglu bar að garði. Þá ber gögnin málsins og framburði fyrir dómi saman um að þegar lögregla kom á staðinn hafi maðurinn verið æstur, blóðugur og búinn að hella yfir sig eldfimu efni. Einnig kom fram að hann hafði skorið sig með dúkahníf í viðurvist lögreglumanna sem reyndu að ræða við hann og hótaði hann að kveikja í sér. Máttu lögreglumenn því allt eins gera ráð fyrir því að stefnandi væri vopnaður.
Eins og aðstæðum var háttað í umrætt sinn telur dómari engan vafa ríkja um að lögreglumönnum, það á meðal sérsveitarmönnum, hafi verið heimilt að beita manninn valdi til þess að tryggja öryggi hans og annarra og afstýra því hættuástandi sem hegðun hans olli.
„Ekki er á það fallist að sú aðgerð að skjóta 40 mm þar til gerðri kúlu að stefnanda hafi verið úr hófi eða verði með einhverjum hætti virt lögreglumönnum til sakar, hvorki með vísan til reglna lögreglunnar um valdbeitingu né almenns saknæmismælikvarða. Ekki er um það deilt að eftir handtöku var stefnandi fluttur á geðdeild og honum sleppt að lokinni aðhlynningu án frekari eftirmála af hálfu lögreglu. Var sá tími sem stefnandi taldist handtekinn þar af leiðandi skammur,“ segir í dómnum.
Að mati dómara verður handtaka mannsins í umrætt sinn og valdbeiting henni tengd alfarið rakin til stórháskalegrar háttsemi hans sjálfs. Vegna þessara atvika átti maðurinn því hvorki rétt á bótum, að því er fram kemur í dómnum.
Fékk símann sinn til baka eftir 11 daga
Varðandi annað atvik er snerti haldlagningu á síma mannsins 13. maí 2018 „liggur fyrir að athafnir lögreglu byggðust á grun um að stefnandi hygðist nota myndir af fyrrverandi sambýliskonu sinni, sem hugsanlega voru geymdar í símanum, í refsiverðum tilgangi. Hvað sem þessu líður, svo og þeim vafa sem uppi er um það hvernig síminn komst nákvæmlega í hendur lögreglu, er ekki komin fram viðhlítandi sönnun fyrir því að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þessari aðgerð lögreglu.“
Þá telur dómari að nokkuð langur tími hafi liðið frá því að hald var lagt á símann þar til maðurinn fékk hann afhentan til baka, eða 11 dagar. Er þá litið til þess að stefnandi hafi veitt samþykki fyrir afritun símans og greiddi þannig fyrir afritun hans. Dómurinn fellst á að maðurinn eigi rétt á einhverjum miska vegna téðrar rannsóknaraðgerðar, en hann hefur ekki uppi fjárkröfu af þessu tilefni.
Rétt á bótum vegna handtöku
Þriðja atvikið átti sér stað þann 28. maí 2018 en þá var maðurinn handtekinn í framhaldi af því að dóttir fyrrum sambýliskonu mannsins hafði haft samband við lögreglu og tilkynnt að hann væri ölvaður á bifreið að elta móður hennar. Var maðurinn handtekinn á heimili sínu í framhaldi af tilkynningunni, meðal annars vegna gruns um ölvunarakstur, og færður á lögreglustöð.
Á það verður fallist með íslenska ríkinu að eins og atvikum var háttað hafi verið nægilegt tilefni fyrir lögreglu að færa manninn á lögreglustöð til blóðrannsóknar. „Hvað sem þessu líður er ekkert komið fram um að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að handtökunni með einhverjum hætti.“ Á hann því rétt á bótum vegna handtökunnar enda er ekki deilt um að málið var síðar fellt niður, að því er fram kemur í dómnum.
„Við mat á fjárhæð bóta verður að horfa til þess að stefnanda var haldið í nokkurn tíma á lögreglustöðinni, þ.á m. var stefnandi hafður í haldi í fangaklefa í u.þ.b. einn og hálfan klukkutíma eftir að töku síðara blóðsýnis lauk án þess að fram hafi komið viðhlítandi skýringar af hálfu stefnda á nauðsyn þeirrar vistunar,“ segir í dómnum. Eins og ástandi mannsins var háttað í umrætt sinn verður lögreglu hins vegar ekki gefið sjálfstætt að sök að hafa gert leit á stefnanda áður en hann var vistaður í fangaklefa.
Um að ræða erlendan mann með skerta burði til samskipta
Þá kemur fram að fyrir liggi viðurkenning íslenska ríkisins á því að mistök hafi orðið við meðferð máls mannsins í umrætt sinn með því að ítrekuðum beiðnum hans um aðstoð lögmanns og túlks hafi ekki verið sinnt, þó þannig að ríkið vísi til þess að maðurinn hafi virst, þrátt fyrir allt, hafa haft nægilega kunnáttu í ensku til að ræða við lögreglumenn og átta sig sakargiftum. Þá mótmælir íslenska ríkið því að maðurinn hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna skorts á lögmannsaðstoð.
Að mati dómsins verður að horfa til þess að réttur handtekins manns til lögmannsaðstoðar heyrir til grundvallarréttinda hans. Þótt ekki hafi verið um að ræða formlega skýrslutöku af stefnanda sé enginn vafi á því að lögreglumönnum hafi borið að bregðast við ítrekuðum óskum hans þar að lútandi. Þá telur dómurinn að brot lögreglu hafi verið þeim mun alvarlegra að um var að ræða erlendan mann með skerta burði til samskipta og skilnings á þeim aðstæðum sem uppi voru. Var því í reynd einnig vegið að rétti mannsins til réttlátrar málsmeðferðar.
Gild ástæða til afskipta lögreglu en ekki handtöku
Í fjórða lagi var maðurinn handtekinn þann 10. nóvember 2018 og eru málsatvik að mestu ágreiningslaus. „Í málinu verður að leggja til grundvallar að á þessu tímamarki hafi nálgunarbanni stefnanda gagnvart fyrrverandi sambýliskonu hans verið lokið. Ekki er fram komið með óyggjandi hætti, gegn mótmælum stefnanda, að hann hafi í reynd hótað fyrrverandi sambýliskonu sinni og syni hennar eða brotið gegn áðurgreindu nálgunarbanni meðan á því stóð. Gildir þá einu þótt í úrskurði héraðsdóms 15. nóvember 2018, þar sem stefnandi var að nýju látinn sæta nálgunarbanni, sé því slegið föstu að rökstuddur grunur sé um refsiverða háttsemi stefnanda að þessu leyti.“
Þótt dómurinn telji að gild ástæða hafi verið til afskipta lögreglu af stefnanda í umrætt sinn, meðal annars vegna þeirra atvika sem á undan höfðu gengið, jafngildi það ekki því að maðurinn hafi valdið eða stuðlað að handtökunni. Þá sé haldlaus sú málsástæða íslenska ríkisins að handtaka mannsins við þessar aðstæður hafi mátt helgast af því að koma hafi átt í veg fyrir áframhaldandi brot, enda hafi þá lögreglu borið að leiða manninn án undandráttar fyrir dómara, krefjast gæsluvarðhalds og að því búnu gefa tafarlaust út ákæru.
Var látinn dvelja í 17 klukkustundir í fangaklefa klæðalaus, án dýnu og viðhlítandi aðhlynningu
Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi verið í haldi lögreglu í um það bil 24 klukkustundir og fyrst tekin af honum stutt skýrsla undir lok gæslunnar. „Jafnvel þótt fallist verði á að ölvun stefnanda og framkoma hans í haldi lögreglu, meðal annars sú háttsemi hans að vera með hnífsblað innan klæða og skera sig í upphandleggi, hafi tafið fyrir skýrslutöku telur dómurinn þennan tíma verulega úr hófi miðað þær sakargiftir sem hér var um að ræða.“
Þá telur dómurinn að ekki hafi komið fram viðhlítandi skýringar á því hvers vegna ekki var aflað aðstoðar geðheilbrigðisstarfsfólks fyrr en að því er virðist eftir tæplega 20 klukkustunda gæslu hjá lögreglu.
Í dómnum kemur fram að það verði að telja sannað að maðurinn hafi verið látinn dvelja í um það bil 17 klukkustundir í fangaklefa klæðalaus, án dýnu og án þess að fá viðhlítandi aðhlynningu. Í þessu hafi falist harðræði lögreglu ólögmæt meingerð gagnvart frelsi og persónu mannsins.
„Samkvæmt öllu framangreindu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Er þá að stærstum hluta litið til ómannúðlegrar meðferðar lögreglu á stefnanda 10. til 11. nóvember 2018,“ segir í dómnum.