Fjórir af hverjum tíu sem voru hefðbundnir atvinnuleitendur í maí, þ.e. voru atvinnulausir að öllu leyti en ekki á hlutabótum, voru erlendir ríkisborgarar. Alls voru 6.320 slíkir án atvinnu í síðasta mánuði sem samsvarar því að um 17,6 prósent atvinnuleysi er á meðal erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi. Til samanburðar var almennt atvinnuleysi í heild sinni 7,4 prósent í maí mánuði.
Fjöldi atvinnulausra íbúa sem eru erlendir ríkisborgarar hefur aukist 3.821 frá því í apríl í fyrra, þegar þeir voru 2.499 talsins. Það er rúmlega 150 prósent aukning á 13 mánuðum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi í maí.
Alls voru 50.877 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi þann 1. maí 2020. Þeir eru 13,9 prósent allra íbúa og því er atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara langt umfram það hlutfall sem þeir eru af öllum íbúum landsins.
Flestir koma frá Póllandi
Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá komu frá Póllandi eða 3.199 talsins. Það þýðir að rúmlega helmingur atvinnulausra útlendinga, alls 51 prósent, sem eru á atvinnuleysisskrá koma frá Póllandi. Næstir í röðinni eru ríkisborgarar Litháen og Lettlands.
Það ætti ekki að koma á óvart að Pólverjar séu fyrirferðarmiklir í tölunum. Þeir eru langstærsti hópur erlendra ríkisborgara sem býr á Íslandi. Þeir eru nú 21.004 talsins eða 5,7 prósent íbúa landsins. Frá 1. desember 2019 hefur pólskum ríkisborgurum fjölgað um 330 talsins.
Heildaratvinnuleysi að dragast saman
Heildaratvinnuleysi lækkaði mikið í maí og fór úr 17,8 prósent í apríl í þrettán prósent í maí. Þar munar mest um að atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleiðinni lækkaði úr 10,3 prósent í 5,6 prósent. Almenna atvinnuleysið lækkaði einnig lítillega, eða úr 7,5 í 7,4 prósent. Gert er ráð fyrir að heildaratvinnuleysi lækki enn í júní og fari þá í 11,2 prósent.
Í almenna bótakerfinu voru 16.134 einstaklingar atvinnulausir í lok maímánaðar og 17.213 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 33.347. Meðalbótahlutfall þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli í maí var um 60 prósent. Í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar segir að „alls voru um 21.500 einstaklingar sem eitthvað voru á hlutabótaleiðinni í maí, flestir þeirra í byrjun mánaðarins en fækkaði yfir mánuðinn sem fyrr segir í um 17.200 í lok mánaðarins. Um 5.200 fyrirtæki voru að baki þessum einstaklingum. Atvinnuleysi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli er í mun meira mæli bundið við ferðaþjónustu heldur en þeirra sem eru í almenna bótakerfinu.“