Í dag opnar kaffihúsið Dalur í Farfuglaheimilinu í Laugardal. Farfuglaheimilið opnaði dyr sínar árið 1986 og frá upphafi hafa erlendir ferðamenn verið í miklum meirihluta þeirra sem gist hafa staðinn. Hugmyndin um opnun kaffihúss í húsinu er ekki nýtilkomin en nú gafst tækifæri til þess að ráðast í framkvæmdina.
„Hérna hefur verið rekið farfuglaheimili eða hostel í áratugi af Farfuglum ses. Við höfum verið með einhverja þjónustu við þá gesti sem hérna eru, sem sagt kaffi og morgunmat og eitthvað slíkt. Svo bara eins og margir aðrir neyddumst við til að loka í vor þegar ferðamenn hættu að koma til landsins og þessi draumur hefur lengi blundað í okkur, að gera eitthvað meira fyrir fólkið í hverfinu og að kynna þennan stað. Þarna kom bara tækifæri og við ákváðum að láta vaða á þetta,“ segir Þorsteinn Jóhannesson framkvæmdastjóri Farfugla í samtali við blaðamann Kjarnans.
Vilja kynnast íbúum hverfisins
Þorsteinn telur að Íslendingar hafi ekki fengið að kynnast því hvað húsið hafi upp á að bjóða, enda viðskiptavinirnir að langstærstum hluta erlendir ferðamenn. Aðspurður um það hvort að rekstur kaffihús létti undir rekstrinum í sumar segir Þorsteinn: „Klárlega. Það skiptir svo miklu máli að hafa líf í húsinu og hafa atvinnu fyrir eitthvað af starfsfólki. Og að fá að kynnast fólkinu í hverfinu.“
Þá segir Þorsteinn að opnun kaffihússins skipti ekki síst máli móralskt séð í rekstrinum. Það sé ekki hugsað sem einhvers konar björgunarhringur, reksturinn standi ekki og falli með kaffihúsinu.
Engir nýgræðingar í kaffihúsarekstri
Félagið hefur ágæta reynslu af sambærilegum rekstri en það rekur Loft í samnefndu farfuglaheimili við Bankastræti. „Dalurinn má segja að verði systurkaffihús Lofts í Bankastræti. Loft er gríðarlega vinsælt meðal ungra íbúa Reykjavíkur og þar erum við með viðburði sem að tengjast lífi og menningu þessa markhóps. En hérna í dalnum verður fókusinn meira á þá sem að hverfið hérna einkennist af, fjölskyldufólki,“ segir Þorsteinn.
En hvernig eru horfurnar í gistingu í sumar þegar lítið verður um erlenda ferðamenn og hótelin farin að bjóða upp á góð tilboð? „Það eru mjög lág verð sem er verið að bjóða á gistingu núna og gistiaðilar eru að keppast við að setja fram tilboð og við höfum tekið þátt í því. Það er erfitt að keppa við vissa þjónustu hótela en við teljum okkur standa betur þegar kemur að gistingu og aðstöðu fyrir fjölskyldur. Svo sem fjölskylduherbergi, eldunaraðstöðu og fleira“.
Býst ekki við mörgum Íslendingum í gistingu í Reykjavík
„Upp á það að gera þá höfum við ýmislegt að bjóða sem hótelin hafa síður. Við viljum nýta tækifærið og bjóða góð verð í sumar til að kynna okkur og keðju Farfugla í heild og vonandi verður mikil traffík á okkar einstöku farfuglaheimilum úti á landi. En hérna í Reykjavík erum við að búast við hóflegri traffík Íslendinga,“ segir Þorsteinn sem bendir á að rúmlega 30 farfuglaheimili eru rekin víða um land.
En er Þorsteinn bjartsýnn fyrir komandi sumri? „Ég er bjartsýnn fyrir hönd kaffihússins. Þær viðtökur sem við höfum þegar fengið við þessari hugmynd eru alveg frábærar. Við höfum fengið að heyra það að fjölskyldur hérna í hverfinu hafi dreymt um opnun á svona stað. Þannig að við erum mjög bjartsýn.“