Lífeyrissjóðir landsins hafa samþykkt að framlengja hlé á gjaldeyriskaupum sínum til erlendra fjárfestinga til 17. september næstkomandi. Upphaflega var gert samkomulag við Seðlabanka Íslands 17. mars um að þeir myndu ekki fjárfesta erlendis í þrjá mánuði til að bregðast við miklum samdrætti útflutningstekna vegna COVID-19 faraldursins. Það samkomulag átti að gilda fram á næsta miðvikudag.
Í morgun tilkynnti svo Seðlabankinn um að samkomulagið hefði verið framlengt. Í tilkynningu hans agði að ljóst væri að hlé á erlendri fjárfestingu lífeyrissjóðanna hefði „gegnt veigamiklu hlutverki í að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika í gegnum þær holskeflur sem skollið hafa á þjóðarskútunni síðustu 3 mánuði. Nú hefur verið ákveðið að framlengja hléið um aðra þrjá mánuði, eða til 17. september nk. Með þessu hafa lífeyrissjóðirnir á ný sýnt stuðning sinn í verki við að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.“
Erlendar fjárfestingar mikilvægar í framtíðinni
Ásgeir segir enn fremur að undanfarin ár hafi Ísland breyst úr því að vera fjármagnsinnflytjandi með þrálátan viðskiptahalla í fjármagnsútflytjanda með drjúgan viðskiptaafgang. „Þessi viðsnúningur stafar að miklu leyti af þeim sparnaði sem verður jafnt og þétt til í lífeyriskerfinu og hefur skapað nýjar forsendur til þess að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika. Það hefur sannarlega komið landinu til góða á síðustu mánuðum.“
Seðlabankinn árétti þó að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna séu mjög mikilvægar þegar horft sé fram á veginn, hvort sem litið sé til hagsmuna sjóðfélaga eða þjóðarinnar í heild. „Þær fela í sér áhættudreifingu lífeyriseigna og koma í veg fyrir neikvæð áhrif af útgreiðslu lífeyris á íslenskt hagkerfi í framtíðinni. Þá eru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða nauðsynlegar til þess að viðhalda jafnvægi á greiðslujöfnuði við jákvæðan viðskiptajöfnuð, útflutningsdrifinn hagvöxt og sköpun nýrra starfa.“
Krónan hefur sveiflast umtalsvert
Íslenska krónan veiktist umtalsvert framan af ári, sérstaklega eftir að COVID-19 faraldurinn og efnahagslegar afleiðingar skullu á af fullum krafti. Staðan leiddi meðal annars til þess að hið óformlega samkomulag milli Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóða landsins var gert um að þeir myndu ekki breyta krónum í annan gjaldeyri í þrjá mánuði til að hindra enn meiri veikingu. Það hefur nú verið framlengt um þrjá mánuði.
Vegna veikingarinnar greipa Seðlabankinn nokkrum sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn í mars og apríl til að draga úr hraða veikingu hennar. Í mars seldi hann alls gjaldeyri úr forða sínum fyrir 10,2 milljarða króna. Þar á meðal voru viðskipti upp á 3,6 milljarða króna þann 13. mars, sem er hæsta upphæð upphæð innan dags frá árinu 2008 hið minnsta, þegar bankahrun varð á Íslandi.
Bankinn hélt áfram að grípa inn í markaðinn í apríl og seldi þá gjaldeyri fyrir alls 7,2 milljarða króna. Alls var hlutur Seðlabankans í veltu á gjaldeyrismarkaði í þeim mánuði 36,3 prósent, sem er langt yfir því sem vanalegt þykir. Til samanburðar var hann 17,5 prósent í mars þrátt fyrir umtalsverð inngrip.
Yfir tíu prósent veiking það sem af er ári
Í lok maí, 26. og 27. þess mánaðar, urðu frekari inngrip í markaðinn. Nú var Seðlabankinn hins vegar að kaupa gjaldeyri til að draga úr umtalsverðri styrkingu krónunnar sem átt hafði sér stað daganna áður. Allt i allt keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 2,7 milljarða króna í síðasta mánuði og bar ábyrgð á 14,3 prósent af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði í krónum.
Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvað olli hinni skyndilegu, og hröðu styrkingu krónunnar sem jók alþjóðlegt virði króna í vasa íslensks launafólks en fækkaði krónunum sem útflutningsfyrirtæki fengu fyrir gjaldeyrinn sem þau skiptu í krónur. Vert er þó að benda á að 27. maí gaf ríkissjóður Íslands út skuldabréf upp á 500 milljónir evra, eða 76 milljarða króna. Mikil eftirspurn var eftir kaupum á bréfum úr útgáfunni og alls bárust tilboð frá yfir 200 aðilum fyrir 3,4 milljarða evra í hana, eða tæplega sjö sinnum það sem var í boði. Það gaf til kynna að ríkissjóður gæti nokkuð auðveldlega sótt sér meira lánsfjármagn í nánustu framtíð, ef vilji væri til.
Innan árs hefur íslenska krónan veikst gagnvart evru um 11,7 prósent, en síðastliðinn mánuð hefur hún styrkst um rúmlega fjögur prósent. Þá er meðtalin umtalsverð veiking hennar síðari hluta liðinnar viku. Gagnvart Bandaríkjadal hefur krónan veikst um 10,1 prósent það sem af er ári en styrkst um níu prósent á síðastliðnum mánuði.
Eignir lífeyrissjóða jukust um 223 milljarða á einum mánuði
Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir megi ekki fara út með peninga hafa eignir þeirra stóraukist. Eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins jukust til að mynda um 223 milljarða króna í aprílmánuði. Þær hafa aldrei aukist um jafn háa upphæð í einum mánuði áður. Samtals námu eignirnar 5.173,2 milljörðum króna í lok aprílmánaðar. Til samanburðar má nefna að eignir sjóðanna drógust saman um 209 milljarða króna í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi. Þá voru heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna þó mun minni, eða 1.659 milljarðar króna, og hlutfallslegi samdrátturinn því mun meiri en hlutfallsleg hækkun nú.
Mestu munaði um að erlendar eignir sjóðanna jukust um 171,4 milljarða króna. Þær voru 1.656,5 milljarðar króna í lok apríl og höfðu aldrei verið meiri. Þar virka saman mikil hækkun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum og veiking krónunnar í aprílmánuði. Hækkunin vakti ekki síður athygli vegna þess að hið óformlegt samkomulag um að lífeyrissjóðirnir haldi að sér höndum í gjaldeyriskaupum, og þar af leiðandi erlendum fjárfestingum, var í gildi.