Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti í gær eftir þremur rúmenskum karlmönnum, sem komu til landsins fyrripart vikunnar, nánar tiltekið fyrir fimm dögum síðan. Mennirnir þrír komu til landsins í sex manna hópi, en þeir eru taldir vera mögulega smitaðir af COVID-19 og vera með virk smit.
Þrír hinna sex mannanna voru handteknir í gær vegna búðarhnupls á Selfossi og reyndust tveir þeirra vera greindir með virkt COVID-19 smit. Því grunar lögregluna að þeir þrír sem lýst er eftir geti verið smitaðir líka.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að mennirnir sem leitað er að heita Pioaru Alexandru Ionut, Adrian Badiu og Madalin Sorin Dragomir. Ionut og Dragomir eru á þrítugsaldri, en Badiu er á fertugsaldri. Hægt er að sjá mynd af tveimur þeirra efst í þessari frétt.
Fóru víða
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gær að hún hefði handtekið áðurnefnda þrjá menn fyrir þjófnað á Selfossi í gær. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að þeir komu til landsins fyrir fjórum dögum og áttu því að vera í sóttkví. Vegna þessa var ákveðið að taka sýni úr nefkoki til að kanna með hugsanleg COVID-19 smit.
Niðurstöður bárust lögreglu um hádegi í gær og reyndust þá tveir einstaklingana vera jákvæðir.
Þar sem mennirnir voru með virk smit, og höfðu ekki myndað mótefni gegn COVID-19, eru 16 lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi og Höfuðborgarsvæðisins sem komu að máli þeirra í sóttkví.
Viðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði við RÚV í gær að mennirnir sem voru handteknir í gær verði fluttir í farsóttarhús á höfuðborgarsvæðinu í dag, sunnudag, þar sem þeir verða í einangrun. Þar munu þeir sæta gæslu lögreglunnar þar til næstu skref verða ákveðin en fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu og aðgang að heilbrigðisstarfsfólki sem mun meta veikindi þeirra.
Hann sagði að miðað við þýfið sem fannst sé ljóst að mennirnir fóru víða og Víðir vonar að mennirnir verði samvinnuþýðir sem myndi auðvelda alla smitrakningu. „Það er þeim ekki til hagsbóta ef þeir verða það ekki og vonandi átta þeir sig á alvöru málsins.“
Samkvæmt núgildandi reglum eiga allir að fara í sóttkví sem koma til landsins en það breytist á mánudag þegar erlendir ferðamenn verða skimaðir fyrir kórónuveirunni.