Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun að varasamt væri þegar menn í valdastöðu vægju að heiðri fræðimanna. „En þegar fræðimenn segja um stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka [...] að þeir séu að verða andlit spillingarinnar þá ætla ég að fá að lýsa þeirri skoðun minni að það sé ekki akademísk niðurstaða. Það er eitthvað allt annað,“ sagði hann.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, spurði ráðherrann hvort eðlismunur væri á því hvernig fræðimenn tjáðu sig um þá sem valdið hafa og hvernig ráðamenn tjáðu sig um fræðimenn.
„Ég les svolítið út úr þessu að ráðherra finnist að fræðimenn eigi ekki að gagnrýna stjórnvöld eða að það sé einhvers konar lína sem fræðimenn mega ekki ganga yfir til þess að teljast ekki nógu góðir akademikar,“ sagði hún og spurði hvort honum hefði fundist Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, ganga of langt í sinni gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn.
„Menn komnir út fyrir fræðistörf sín“
Bjarni svaraði og sagði að þegar fræðimenn tækju ákvörðun um að fara inn á vettvang stjórnmálanna og gerast þar stórvirkir, jafnvel fara í framboð og „fella stóra dóma um einstaklinga og stjórnmálaflokka“ og grípa til samlíkinga við helförina og nasista í Þýskalandi, þá væru þeir að valda sér sjálfsskaða sem fræðimenn – frekar en að efla sig.
„Það er mín niðurstaða – mín skoðun. Og þá eru menn líka um leið að gefa færi á því að það sé tekið á móti, því þá eru menn komnir út fyrir fræðistörf sín. Þá eru menn komnir inn á nýtt svið, nýjan vettvang þjóðfélagsumræðunnar sem hefur ekkert endilega með akademíuna að gera. Og menn bregða fyrir sig þeim skildi, akademískum skildi: „Heyrðu, hér hef ég minn akademíska skjöld og menn geta ekki vegið að mér á þessum vettvangi vegna þess að ég er með þennan skjöld.“.“
Bjarni telur að þeir fræðimenn séu búnir að leggja þennan skjöld frá sér og séu komnir inn í allt aðra umræðu. Þeir verði þá að þola að þeim sé svarað og mætt. „Þá koma sjónarmiðin um samtal valdshafanna og fræðimannasamfélagsins í algjörlega nýtt ljós.“