Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur óskað eftir opinberri rannsókn á máli Rúmenanna sem hingað komu til lands þann 5. júní síðastliðinn en tveir reyndust sýktir af COVID-19 sjúkdómnum. Þetta kom fram í máli hennar á Alþingi í dag en hún beindi óundirbúinni fyrirspurn til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
„Stjórnvöld tala um að nú sé verið að opna landamærin en ef það er verið að opna þau núna þá hljóta þau – eðli málsins samkvæmt – að hafa verið lokuð áður, eða hvað? Á það bara að vera misskilningur að halda að landið hafi verið lokað nema fyrir þá sem hingað komu brýnna erinda vegna vinnu?“ spurði Inga.
Hún sagði að á Íslandi væru stjórnvöld sem hvorki vissu hvort þau væru að koma eða fara. „Þau mæta sjálfum sér í dyrunum; segja að nú sé verið að opna landamærin en þau voru jú alveg lokuð, eða hvað?“
Vill fá að vita hvað hafi misfarist í þessu tiltekna máli
Inga sagðist velta því fyrir sér í ljósi þessa hvernig í rauninni væri verið að telja Íslendingum trú um hvernig stæði á því að hópur kórónuveirusýktra „rúmenskra glæpamanna“ hefði sloppið inn í landið, „þar sem hann lék lausum hala dögum saman“.
Vísar þingmaðurinn í tvo rúmenska menn sem reyndust sýktir við komuna til landsins og þurfi hópur lögreglumanna að fara í sóttkví í framhaldinu.
„Við vitum ekkert hvert þessir einstaklingar hafa farið. Hverjir þeir hafa hitt. Við vitum ekkert um það hvort þeir hafi verið að smita fólk hér í marga daga. Hvaða upplýsingar gaf þetta fólk til dæmis við komuna til landsins? Þurfti það ekki að gefa neinar upplýsingar? Rúmenía er til dæmis ekki í Schengen, hvers vegna virkaði það ekki sem maður myndi ætla að væri eftirlitskerfi Schengen? Var engin landamæralögregla til að skoða pappíra þessa fólks eða hvaða pappírum þurfti það til dæmis að framvísa? Engum? Eða vegabréfum – vottorðum um að þau væru komin hingað til að starfa?
Virðulegi forseti, ég vil að opinber rannsókn fari fram á þessu máli og að það verði krufið til mergjar hvað hafi eiginlega gerst og hvað hafi misfarist í þessu tiltekna máli. Trúverðugleiki okkar nú, þegar við erum að reyna að feta veginn að eðlilegu ástandi, er í húfi,“ sagði Inga. Hún spurði því dómsmálaráðherra hvort hún vissi hvað hefði farið úrskeiðis og hvers vegna og hvort hún hygðist beita sér fyrir því að þetta mál yrði rannsakað í kjölinn.
Smitrakning fer nú fram
Áslaug Arna svaraði og sagði að þetta væri ekki jafn óskýrt og Inga vildi vera að láta. „Landið var ekki lokað en við erum auðvitað að opna það með meiri hætti með því að bjóða upp á skimun. Það er varla hægt að halda því fram að landið sé mjög opið ef skilyrðið er að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna. Það er allavega ekki opið fyrir ferðamenn sem vilja ferðast hingað til lands í styttra mæli en tvær vikur.“
Hún sagði að nú væri verið að opna landið með meiri hætti af því að „við erum bæði að bjóða Íslendingum og öðrum sem hingað koma upp á skimun og þeir geta þá komið hingað með frjálsara lagi en var“.
Varðandi mál Rúmenanna þá sagði hún að rétt væri að Rúmenía væri ekki í Schengen en að þessir menn hefðu heldur ekki komið þaðan heldur frá Schengen-svæðinu. „Auðvitað er athugað eins og hjá öðrum að það er beint til þeirra að fara í sóttkví og það er skylda á því og það var það sem þeir brutu. Það voru þær reglur sem voru brotnar. Auðvitað fer nú bara fram smitrakning á þessu einstaka máli, svo það sé kannað hvort aðrir þurfi að fara í sóttkví vegna þeirra,“ sagði hún.
Rakningarteymið mun hringja í alla aðila
„En af því að í dag hófst þessi skimun þá er einnig breyting á utanumhaldi á forskráningunni á þeim sem hingað koma til lands og þá er um að ræða upplýsingar um þá farþega – þá fara þeir beint í smitrakningargagnagrunninn svokallaðan og þá eru mikið ítarlegri upplýsingar um þá sem hingað koma. Bæði um þá sem velja að fara í sóttkví eða þá sem velja það að taka sýni. Þannig að þessi breyting á heimildum er einnig skýrari nú að frávísa þeim sem ætla sér ekki að virða það að fara í sóttkví,“ sagði dómsmálaráðherrann.
Hún sagði enn fremur að lögreglan myndi hafa eftirlit með því hvort sóttkví væri fylgt eftir eða ekki. „Einnig mun rakningarteymið hringja í alla aðila og athuga hvort viðkomandi fylgi þeim reglum en svo mun tíminn auðvitað leiða í ljós hvaða ráðstafanir gæti þurft að grípa til. Hérna erum við að fara mikilvæga leið. Við erum að skrá betur og höfum þá meira utanumhald en við gerðum um helgina en ég sé ekki að eitthvað hafi farið úrskeiðis sérstaklega í þessu máli. Það er auðvitað mjög alvarlegt að framlínustarfsmenn okkar, stór hluti lögreglunnar á Suðurlandi, sé nú í sóttkví en við því verður brugðist og ég hef átt samtal við lögreglustjórann um það.“