Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 8 prósent árið 2019 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga, að því er fram kemur í frétt Hagstofunnar í dag.
Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 8,1 prósent árin 2016, 2017 og 2018 samkvæmt endurskoðuðu mati. Hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu hefur því nánast staðið í stað frá 2016.
Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna.
Neysla íslenskra ferðamanna eykst milli ára
Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands tælega 2,6 milljónir árið 2019 sem var 8,7 prósent fækkun frá fyrra ári. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fækkaði um 14,1 prósent árið 2019 en gistinóttum fækkaði einungis um 1,7 prósent. Til samanburðar þá fjölgaði gistifarþegum um 5,3 prósent árið 2018 en gistinóttum um 2,3 prósent.
Heildarútgjöld innlendra og erlendra ferðamanna námu 552,6 milljörðum króna árið 2019, samkvæmt Hagstofunni. Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu 383,4 milljörðum króna árið 2019 samanborið við 394,2 milljarða króna árið 2018.
Tæpur fjórðungur útgjaldanna var vegna kaupa á gistiþjónustu eða 86,9 milljarðar króna. Þá greiddu erlendir ferðamenn 75,7 milljarða til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og 63,2 milljarða til innlendra flugfélaga vegna fargjalda hingað til lands og ferða innanlands. Neysla innlendra ferðamanna nam 138,1 milljörðum árið 2019, sem er átta milljörðum meira en árið áður. Önnur neysla nam 31,1 milljarði króna.