Alls hefur tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa kostað íslenska ríkið og Reykjavíkurborg 12,5 milljarða króna í framlög frá því að húsið var opnað 2011 og út síðasta ár. Sú tala miðar við fast verðlag. Rekstarframlag náði hámarki í fyrra ef horft er á framlag á verðlagi hvers árs, þegar íslenska ríkið lagði 877 milljónir króna til rekstursins en borgin 747 milljónir króna. Um er að ræða bæði framlag til endurgreiðslu lána vegna byggingarkostnaðar og beint rekstrarframlag. Þegar horft er á framlög á föstu verðlagi, og miðað við verðlag í janúar 2020, var árið 2017 metár í framlögum, en ekki munar miklu á því framlagi og greiðslunum í fyrra.
Alls hefur ríkið greitt 5,6 milljarða króna í framlag vegna endurgreiðslu láns vegna byggingarkostnaðar á umræddu tímabili og Reykjavíkurborg tæplega 4,8 milljarða króna. Beint rekstrarframlag, til að mæta miklum taprekstri Hörpu, hefur samtals numið rúmlega 2,1 milljarði króna frá 2011. Þar af hefur ríkið lagt til rúman 1,1 milljarð króna en borgin 974 milljónir króna. Borgin hefur fengið um 1,9 milljarð króna af heildarframlagi sínu til baka vegna álagðra fasteignaskatta á Hörpu.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um málið sem birt var í gær.
Átti ekki að setja meira fé í reksturinn
Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg samþykktu að taka yfir og klára byggingu Hörpu snemma árs 2009. Þá höfðu framkvæmdir við byggingu hússins, sem Eignarhaldsfélagið Portus stóð fyrir, stöðvast í kjölfar bankahrunsins. Ástæðan var sú Portus og dótturfélög þess, sem voru í eigu Landsbanka Íslands og Nýsis, fóru í þrot.
Eftir yfirtöku ríkis og borgar á verkefninu, sem var gerð þegar Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, var menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, var tekið sambankalán hjá íslensku bönkunum til að fjármagna yfirtökuna. Í skriflegu svari Katrínar við fyrirspurn þingmannsins Marðar Árnasonar um Hörpu, sem birt var í mars 2011, kom mjög skýrt fram að ekki ætti að setja meira fé en þar var umsamið í Hörpu.
Þar sagði orðrétt að „forsendur fyrir yfirtöku verkefnisins voru þær að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar-TR og Portusar frá 9. mars 2006".
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan er nú í 54 prósent eigu ríkisins og 46 prósent í eigu Reykjavíkurborgar.
Ekki sjálfbært rekstrarmódel
Harpa hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2019. Árið á undan, 2018, var afkoma rekstrarreiknings Hörpu hins vegar var neikvæð um 461,5 milljónir króna og jókst mikið milli ára.
Þórður Sverrisson, þá fráfarandi stjórnarformaður Hörpu, sagði í á ársfundi Hörpu í fyrra að tapið skýrðist af því fyrirkomulagi að skuldabréfalán til 35 ára, sem tekið var til að fjármagna byggingu hússins, væri vistað í dótturfélagi fyrirtækisins. „Það er morgunljóst að þetta rekstrarmódel Hörpu hefur aldrei verið og getur aldrei orðið sjálfbært. Því verður að breyta til að ná að skapa Hörpu ohf, sem hlutafélagi eðlilegan rekstrargrundvöll til framtíðar þannig að það nái að starfa sem sjálfbært fyrirtæki og geti gegnt sínu mikilvæga hlutverki.“
Núverandi stjórnarformaður Hörpu er Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir.