Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að hann ætli sér að standa í stafni flokksins í kosningabaráttunni sem er fyrirliggjandi í aðdraganda þingkosninga sem munu fara fram á næsta ári. Það þýðir að hann verður í framboði á flokksþingi Framsóknarflokksins sem fram fer síðar á þessu ári.
Frá þessu greindi hann í ræðu sinni á miðstjórnarfundi í gær.
Sigurður Ingi hefur verið formaður Framsóknarflokksins frá því í október 2016. Þá sigraði hann Sigmund Davíð Gunnlaugsson með 370 atkvæðum gegn 329. Sigmundur Davíð yfirgaf svo Framsóknarflokkinn í aðdraganda þingkosninga 2017 og stofnaði Miðflokkinn, sem fékk 319 atkvæðum fleiri en Framsókn í þeim kosningum.
Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni að haustið 2017 hefði ekki verið auðveldur tími fyrir flokkinn, þrátt fyrir að hann hefði náð að nánast tvöfalda fylgi sitt á síðustu fjórum vikunum fyrir kosningarnar, miðað við stöðu hans í könnunum. „Þá sáum við á eftir mörgum félögum yfir í annan flokk. Við vorum í vörn í þeim kosningum en náðum samt þeim merka árangri að mynda sterka og breiða ríkisstjórn sem unnið hefur samhent að stjórn landsins. Ég hef fundið flokkinn sem mér þykir svo vænt um styrkjast með hverjum degi frá síðustu kosningum en betur má ef duga skal.“
Ekki mælst með minna fylgi á kjörtímabilinu
Þrátt fyrir að Framsókn væri ánægð með þau verk sem flokkurinn hefði komið að á kjörtímabilinu benti Sigurður Ingi á að yfirlýstur stuðningur við flokkinn væri ekki í samræmi við þá ánægju. „Margir segja, jafnvel flokksmenn, að við séum ekki nægilega sýnileg; að við segjum ekki nægjanlega vel frá því sem við séum að vinna að og framkvæma. Við því vil ég segja - við getum og eigum að gera betur.“
Í síðustu könnun MMR, sem birt var í lok síðasta mánaðar mældist fylgi Framsóknarflokksins 6,4 prósent. Yrði það niðurstaða kosninga myndi Framsóknarflokkurinn verða minnsti flokkurinn sem næði manni inn á þing og um væri að ræða langverstu niðurstöðu hans í kosningum frá því að Framsóknarflokkurinn var stofnaður 1916. Fylgi Framsóknarflokksins í síðustu könnun var enn fremur það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili.
Segir flest loforðin hafa verið efnd
Sigurður Ingi sagði í ræðunni að hann gerði sér grein fyrir að þingsætin væru eftirsóknarverð, enda hlyti það að vera draumur og metnaður allra þeirra sem starfi í stjórnmálum að nýta krafta sína í þágu lands og þjóðar á Alþingi Íslendinga. „Það á að vera samkeppni um sæti í sveitarstjórnum og á þingi og öllum forystustörfum, það er styrkleikamerki lýðræðislegs flokks. Fyrir næstu kosningar þurfum við að styrkja okkur og stækka og fá til liðs við okkur öflugt fólk sem finnur samhljóm með baráttumálum okkar og stefnu.
Sá árangur sem við höfum nú þegar náð með starfi okkar í ríkisstjórn er slíkur að loforðin sem við gáfum fyrir síðustu kosningar hafa flest verið efnd. Nú tekur við mikilvægur tími þar sem við setjum stefnuna fyrir framtíðina, höldum áfram veginn, ótrauð, og fáum til liðs við okkur öflugt fólk sem finnur samhljóm með gildum Framsóknar.“
Í ræðunni sagði Sigurður Ingi að starf flokksmanna næstu mánuðina muni ákvarða hver verða baráttumál flokksins í næstu kosningum. „Þá er ég ekki að tala um kollsteypu í stefnu heldur þurfum við að hlusta á þarfir samfélagsins, þarfir fjölskyldunnar sérstaklega: barna, eldra fólks og ungs fólks. Við viljum ekki staðna sem stjórnmálaafl heldur vera áfram sterkur aflvaki hugmynda og hreyfiafl til góðs fyrir samfélagið okkar.“