Icelandair finnur fyrir miklum áhuga á Íslandi á öllum sínum mörkuðum eftir að skimun á landamærunum hófst. Áhuginn helst að miklu leyti í hendur við hvernig gengið hefur að takast á við COVID-19 í viðkomandi landi. „Almennt sýna ferðamenn skimunarferlinu skilning og auðvelt að útskýra að það sé í samræmi við aðgerðir Íslands í baráttunni við COVID og að þetta skapi öryggi á ferðalaginu,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Hins vegar finnum við að sérstaklega stærri hópum og fjölskyldum með eldri börn þykir þetta hátt gjald. Þá hefur þetta í einhverjum tilfellum leitt til afbókana á eldri bókunum fyrir sumarið og þess að hætt er við að bóka Íslandsheimsókn.“
Skimun við landamæri Íslands hófst 15. júní og er farþegum að kostnaðarlausu. Þann 1. júlí þarf að greiða 15 þúsund krónur fyrir skimunina. Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku.
Ásdís Ýr segir að þónokkuð sé um bókanir bæði frá Þýskalandi og Danmörku en að þær séu færri frá Bretlandi og Frakklandi. „Við finnum einnig fyrir áhuga í Bandaríkjunum og margir sem bíða eftir því að landamæri Bandaríkjanna og ytri landamæri Schengen verði opnuð fyrir ferðamönnum. Þetta er þó auðvitað ekkert í líkingu við síðustu ár og ljóst að færri hyggja á ferðalög, að minnsta kosti til skamms tíma.“
Í kjölfar COVID og lokunar á landamærum víða um heim varð Icelandair að uppfæra flugáætlun sína aðeins viku fram í tímann þar sem óvissan var mikil. En í júní og einnig í júlí verður reynt að uppfæra áætlunina tvær vikur fram í tímann að sögn Ásdísar. „Við erum þó stöðugt að endurmeta flugáætlunina enda hlutirnir að breytast hratt dag frá degi.“´
Íslendingar heimsækja nágrannaríkin
Milli 15 og 30. júní flýgur Icelandair til 11 áfangastaða, um 5-6 brottfarir á dag. Þeir eru: Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Ósló, Berlín, Frankfurt, Munchen, Amsterdam, Zurich og París. Félagið heldur svo uppi lágmarks flugsamgöngum til London og Boston í samstarfi við íslenska ríkið en það eru tvö flug á viku á hvorn stað. „Við gerum ráð fyrir að bæta þónokkrum áfangastöðum við frá og með 1. júlí en það er háð því hvenær landamæri Bandaríkjanna og ytri landamæri Schengen verði opnuð fyrir ferðamenn,“ segir Ásdís Ýr.
Íslendingar eru farnir að bóka sér flug til útlanda en flestir lengra fram í tímann, í haust og vetur. „En það er hópur af fólki sem er tilbúinn að ferðast strax í sumar og þá er það að mestu til nágrannalanda okkar, Norðurlandanna og til Þýskalands.“
Ásdís segir Icelandair bjartsýnt á að ferðalög haldi áfram að aukist hægt og örugglega á næstu misserum.
Á upplýsingasíðu ISAVIA má finna yfirlit yfir alla áfangastaði og flugfélög sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í júní og júlí. Á þeim lista er nú að finna níu flugfélög, að Icelandair meðtöldu.